Fréttir

3.6.2015

Hátíðarfundur í Tónlistaskóla Árnesinga

Tónlistarskóli Árnesinga varð 60 ára á dögunum. Af því tilefni var ákveðið að styrkja skólann til hljóðfærakaupa um kr. 300 þ. Við sama tilefni var Björgunarfélagi Árborgar færðar forláta sérhæfðar sjúkrabörur, svokallaðar SKED björgunarbörur sem nýtast sveitinni vel bæði til fjalla og rústabjörgunar.

Í tilefni af 60 ára afmæli Tónlistarskóla Árnesingar var ákveðið að heimsækja skólann og halda þar fund og sýna skólanum um leið stuðning í verki. Björgunarfélagi Árborgar var um leið þakkað mikið og farsælt starf og færðar  sérhæfðar sjúkrabörur, svokallaðar SKED björgunarbörur sem nýtast sveitinni vel bæði til fjalla og rústabjörgunar. Þær eru léttar og meðfærilegar og þægilegar að vinna með í þröngum aðstæðum.Tryggvi H Oddsson formaður sveitarinnar lýsti fyrir fundarmönnum kostum þessa áhalds og veitti þeim síðan viðtöku ásamt bréfi frá klúbbnum þar um. Þá tók Hjörtur Þórarinsson til máls og ræddi hugmynd sína um tónlistarakademíu. Kastaði hann boltanum til skólameistara FSU Olgu Lísu Garðarsdóttur og Roberts Darlings, skólastjóra Tónlistarskóla Árnesinga til frekari skoðunar. Olga Lísa fagnaði góðri hugmynd sem hún taldi vert að vinna með frekar. Forseti kallaði því næst Robert Darling skólastjóra upp og afhenti honum 300 þús kr. styrk til hljóðfærakaupa, í tilefni 60 ára afmælis skólans. Þá var tónlistaratriði, þrjár ungar konur fluttu verk eftir eina þeirra. En þær eru, Iðunn Rúnarsdóttir, klarínetta, Bergþóra Rúnarsdóttir, fiðla og Margrét Rún Símonardóttir, víóla. Þær léku lagið Þrá eftir Bergþóru Rúnarsdóttur. Þá tók Róber Darling til máls og rakti sögu skólans, helstu áherslur og þróun á liðnum árum. Starfið er afar fjölbreytt og starfstöðvar víða í sýslunni. Nemendur voru um 700 á liðnu starfsári. Að erindi sínu loknu lék Matthildur María Guðmundsdóttir á píanó, Prelúdíu í cís-moll eftir Rachmaninoff,  við góðar undirtektir enda afburða nemandi á ferð. Forseti þakkaði Róbert fyrir góðar móttökur.