Fréttir

3.6.2015

Vorferð í Selvog og Herdísarvík

Vorferð Rkl. Selfoss var að þessu sinni farin í Selvog og Herdísarvík. Þórarinn bóndi Snorrason í Vogsósum leiddi fólk um sagnaslóðir þjóðsskáldsins Einars Benediktssonar og sambýliskonu hans Hlínar Johnsson ásamt ýmsu öðru í fróðlegri og skemmtilegri ferð.

Lagt var af stað frá Hótel Selfossi kl. 13.30 sem leið lá að Vogsósum í Selvogi. Þar kom Þórarinn bóndi Snorrason um borð í rútuna og hóf þegar að segja frá þjóðskáldinu Einari Benediktssyni og sambýliskonu hans og förunauti Hlín Johnsson. Þá sagði Þórarinn einnig frá merkum prestum og öðru samferðafólki sem búið hafði á Vogsósum eða kennt er við staðinn. Þá var haldið yfir ós Hlíðarvatns sem í dag er nefnt Vogsós og þar benti hann okkur á stíflumannvirki nett, sem er tilraun til að halda aftur að flúndru sem sótt hefur ótæpilega upp í vatnið í seinni tíð. Haldið var sem leið lá vestur Víðisand og að Herdísarvík. Þar voru skoðuð mannvirki frá því tímum útræðis. Steingarðar þar sem fiskurinn var lagður á til þerris, sjóbúðir og svo vörin þar sem lagt var upp. Þá leiddi Þórarinn okkur um bæjarstæðin í Herdísarvík og sagði sögur af fólkinu sem þar bjó, aðalega þó af þjóðskáldinu og Hlín. Hlín flutti með Einar í Herdísarvík um 1932.  Einar átti bæði Herdísarvík og Krísuvík og því taldi Hlín gott að þau dveldu þarna fjarri heimsins glaumi. Síðustu tvo árin var Einar sagður fjarrænn og utan við sig. Hann lést í janúar 1940. Forláta kistu úr eik, sinkklædda að innan hafði skáldið látið útbúa fyrir sig. Kistan komst á bíl út að Vogsósum og var síðan borin út í Herdísarvík um 6 km leið. Þar var haldin húskveðja og kistan borin til baka að Vogsósum með skáldinu innanborðs. Var þetta mikið erfiði og þrekraun. Nú var haldið austur í Selvog og fyrsta stopp við Strandakirkju þar sem Þórarinn sagði fleiri sögur af fólkinu sem þarna hafði búið. Þá var ekið um og Þórarinn og Gunnar B. sögðu frá sveitinni, fyrrum stórbýlum, örnefnum og aðstæðum t.d. í Beggjakoti þar sem Gunnar var í sveit og hefur æ síðan kallað Selvog sveitina sína. Eftir góðan viðurgjörning í T-Bæ var haldið heim á leið um kl. 19.00 eftir skemmtilega og afar fróðlega ferð. Í þessu litla og afskekkta samfélagi býr mikil saga sem vert er að kynna sér.