Fréttir

29.5.2015

Sigtún- Þróunarfélag

Guðjón Arngrímsson kynnti hugmyndir félagsins Sigtún - Þróunarfélags um uppbyggingu miðbæjarsvæðisins á Selfossi

Guðjón sagði fyrst frá sjálfum sér og tengslum sínum við Selfoss enda fæddur og uppalinn á Selfossi. Þá kynnti hann helstu forsendur sem að baki liggja áformum Sigtúns – Þróunarfélags. Miðbæjarsvæðið sem hefur lengi staðið autt, hafi kallað fram hugmyndir um sýningarhús og söfn en jafnframt hugmyndir að uppbyggingu húsa eftir gömlum fyrirmyndum, sem gætu bæði nýst sem íbúðarhús sem og fyrir margvíslega starfsemi. Selfoss er í alfaraleið og kallar á verkefni sem væri aðdráttarafl fyrir ferðamenn, jafnt innlenda sem erlenda. Guðjón sýndi á glærum drög að skipulagi því sem unnið er eftir og gat þess að undirbúningi miðaði vel en í haust yrði lokaákvörðun tekin um hvort farið yrði af stað með verkefnið. Allt byggðist það á samningum um leigu á húsum og fjármögnun. Guðjón tók fram að eðlilega væru skiptar skoðanir um svona verkefni. Guðjón svaraði fjölmörgum fyrirspurnum og var þakkað gott og upplýsandi erindi.