Fréttir

26.5.2015

Keflavíkurflugvöllur - sagan - framtíðin

Friðþór Eydal flutti erindi um Keflavíkurflugvöll

Á fundi Rkl. Selfoss 19. maí 2015 flutti Friðþór Eydal fróðlegt erindi um Keflavíkurflugvöll. Á fundinn mættu einnig hjónin Helge Granemadsen læknir og félagi í Rkl. Stege í Danmörku og kona hans Sólveig Kaldalóns Jónsdóttir sem ólst upp á Selfossi sem barn.

Helge Granemadsen sem er félagi í Rkl. Stege í Danmörku, sagði frá ferð þeirra hjóna til Litháen en þar hefur klúbbur hans stutt við munaðarleysingjahæli fyrir börn. Sigurður K. Kolbeinsson kynnti fyrirlesara kvöldsins, Friðþór Eydal sem starfar sem fulltrúi í framkvæmdastjórn Isavía. Fáir eða engir íslendingar þekkja sögu Keflavíkurflugvallar og sögu varnarliðsins, eins vel og Friðþór. Friðþór kom víða við í yfirgripsmiklu erindi sínu sem hann kallaði Keflavíkurflugvöllur – sagan - framtíðin. Hann kynntist ungur starfsemi flugvallarins og hefur lífsstarf hans tengst flugstarfsemi síðan. Hann fór yfir sögu flugvalla í stuttu máli, allt frá Kaldaðarnesi 1940, Reykjavíkurflugvelli 1941 og Keflavíkurflugvelli 1943 til dagsins í dag. Í upphafi voru tveir flugvellir í Keflavík, sá stærri fyrir millilandaflug en sá minni fyrir orustuflugvélar. Stærri völlurinn varð síðan grunnurinn að þeim flugvelli sem nú er. Friðþór sem er hafsjór af fróðleik, stiklaði á stóru í sögu millilandaflugsins og varnarliðsins. Hann gat um þá gríðarmiklu starfsemi sem nú fer fram á flugvellinum, þar sem Kef tengist 80 öðrum áfangastöðum og um 20 flugfélög fljúga hingað.  Vöxtur ferðamanna hefur verið um 20% á ári um nokkurn tíma og sér ekki fyrir enda á þeirri þróun. Það kallar á frekari þróun flugvallar og flugstöðvar, til að mæta þessu álagi. Sífellt eru gerðar ráðstafanir til að auka afkastagetu flugstöðvarinnar og fyrir liggja áætlanir til 2040, sem Friðþór sýndi á glærum. Friðþór svaraði fjölmörgum fyrirspurnum og var þakkað gott og fróðlegt erindi.