Fréttir

13.5.2015

Hringbraut sjónvarps- og vefmiðill

Guðmundur Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri og eigandi Hringbrautar kynnti starfsemi stöðvarinnar

Hringbraut er ný sjónvarpsstöð og einnig vefmiðill. Guðmundur Örn Jóhannsson er framkvæmdastjóri og eigandi stöðvarinnar. Hann gerði grein fyrir tilurð og stefnu þessa nýja miðils á fundi hjá Rkl. Selfoss 12. maí.

Sigurður K. Kolbeinsson kynnti fyrirlesara kvöldsins Guðmund Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóra og eiganda sjónvarps- og vefmiðilsins Hringbrautar, sem stofnuð var í desember 2014 en hóf útsendingar í febrúar sl. Sigurður gat þess að þeirra kynni næðu til langs tíma og að þeir hefðu verið í hópi frumherja Stöðvar2 þegar hún fór í loftið á sínum tíma. Guðmundur hefur víða komið við í störfum sínum og Sigurður gaf honum starfsheitið markaðssérfræðingur enda með mikla reynslu sem sölu- og markaðsmaður.  Guðmundur greindi frá því að hann hefði verið ráðinn sjónvarpsstjóri INNTV og komið þar inn til að endurskipuleggja reksturinn. Ekki náðist saman um verð og sjónarmið og fór hann þá ásamt þremur öðrum að skoða rekstur á annarri sjónvarpsstöð, þar sem útsending væri í háskerpu og vönduð að allri gerð. Þeir sem komu að málum með Guðmundi eru Sigurður K. Kolbeinsson, stjórnarformaður stöðvarinnar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, fréttastjóri m.m. og Sverrir Karlsson, tæknistjóri. Guðmundur kynnti helstu markmið og áherslur í starfi Hringbrautar en þau eru þjóðmál, menning, heimili og lífstíll. Stöðin er ætluð markhópi 35 ára og eldri, er opin og ókeypis. Samhliða sjónvarpsrásinni er rekinn vefmiðill hringbraut.is þar sem birtar eru fréttir og pistlar en einnig er hægt að nálgast þar þætti stöðvarinnar og horfa á þegar hentar. Guðmundur greindi frá því að lögð væri áhersla á jafna kynjaskiptingu, gagnrýna umræðu og mannvirðingu. M.a. þess vegna væru þau ekki með opnar bloggrásir. Þá gat um þá sem rita fyrir stöðina sem fasta penna og lagði áherslu á að þar væru breiður hópur velskrifandi fólks, með margvísleg viðhorf. Stúdíóið er lítið og allir leggjast á eitt við að láta dæmið ganga upp. Guðmundur fékk margar fyrirspurnir sem hann og Sigurður K. Kolbeinsson svörðu af lipurð.