Fréttir
  • Hjörtur Þórarinsson

4.2.2015

Tónlistarfélag Árnesinga

Rótarýklúbbur Selfoss stóð fyrir stofnun Tónlistarfélags Árnesinga árið 1955. Hjörtur Þórarinsson fór yfir sögu þess. 

Hjörtur Þórarinsson hefur átt sæti í stjórn Tónlistarfélags Árnesinga frá stofnun og þekkir því söguna vel.

Í Rótarýklúbba hafa valist framsýnir forystumenn hvers byggðarlags. Á hverjum fundi vekja þeir athygli á markmiðum sínu, þar segir m.a.: "Er það öllum til góðs". sagði Hjörtur í upphafsorðum sínum um sögu Tónlistarfélags Árnesinga. Einn félagi í Rótarýklúbbi Selfoss var sr. Sigurður Pálsson. Hinn 19. júlí 1955 ræddi sr. Sigurður um þörf fyrir víðtæka og almenna endurvakningu tónlistar í héraðinu öllu. Þar var allt tekið fyrir, tónmennt í öllum grunnskólum, frjáls tónlistarkennsla fyrir fólk á öllum aldri, efling kirkjusöngs og annarra kóra, stofnun lúðrasveita og hljómsveita. Hann var m.a. að leita eftir organista við hina nýju kirkju á Selfossi. Hann var þess fullviss að við yrðum að stofna tónlistarskóla fyrir héraðið. Þann 29. september 1955 var haldinn stofnfundur Tónlistarfélags Árnesinga.Fyrsta stjórn þess var þannig skipuð: Ingólfur Þorsteinsson, formaður, Sigurður Ingi Sigurðsson, gjaldkeri og Hjörtur Þórarinsson, ritari. Markmið félagsins var að efla tónlistarstarfsemi í Árnessýslu. Tónlistarfélagið rak tónlistarskólann í 20 ár eða til ársins 1975 er starfsemin fluttist yfir til sveitafélaganna í samræmi við ný lög sem þá tóku gildi. Frá árinu 1978 hefur Tónlistarfélagið haldið aðventutónleika í Selfosskirkju og hefur hagnaði ávallt verið varið til góðra málefna kirkjunnar og sjúkrastofnana. Hjörtur hefur hlúð að þessu starfi í 60 ár óslitið og á heiður skilið fyrir alúð og dugnað. En nú eru tímamót og því verður Rkl. Selfoss að taka afstöðu til framtíðar félagsins. Stjórn Rkl. Selfoss skipaði nefnd til að vinna að framtíðarstefnumótun sem skilar af sér fyrir vorið.

Tónlistin gerir menn glaða og gefur á báðar hendur.
Tónlist í taktbundnum hraða tindrar um ómælis lendur.
Tónlist á róandi rökin á raunatímum að sefa.
Tónlist á næmustu tökin á tregastundum að gefa.

Rótarýmenn hafa með þessu framtaki sínu fylgt rækilega eftir markmiði Fjórprófsins og það verið svo mörgum til góðs.

Fjórprófið ykkar er fyrirheit
og farsælt í umhverfið.
Tónlistar átakið víst ég veit
er vottorð á Fjórprófið.

Yndileg áhrif frá tónlist ég tel
það tæmist ei inneign þess sjóðs.
Það eykur mjög velvild og vinarþel
og verður svo mörgum til góðs.

 Selfossi 3. febrúar 2015 á fundi í Rótarýklúbbi Selfoss, Hjörtur Þórarinsson