Fréttir

18.3.2013

Frosti Sigurjónsson rekstrarhagfræðingur gestur á fundi hjá Rótarýklúbb Selfoss 12.3.2013

Frosti Sigurjónsson fyrirlesari kvöldsins    Frosti Sigurjónsson 12.3.2013

Forseti setti fund kl 19:00 og bauð gesti velkomna á hefðbundinn hátt. Gestir fundarins voru Guðmundur Theódórsson, Kristín Hafsteinsdóttir og Frosti Sigurjónsson sem jafnframt var fyrirlesari kvöldsins. Forföll höfðu boðað Sigurður Þór, Jón Rúnar, Björn Bjarndal og Björgvin.

Ólafur Helgi bað um orðið vegna Glasgow ferðar en hann hafði skoðað þann möguleika að ferðalangar myndu sækja Rótarýfund í ferðinni. Heimsókn til fjögurra klúbba kom til greina en vegna fjarlægða er aðeins ein þeirra raunhæf. Fundur hefst í þeim klúbbi kl. 13:00 á komudegi og eru áhugasamir vinsamlegast beðnir um að láta Ólaf vita sem allra fyrst um þátttöku sína þar sem gefa þarf upp fjölda gagnvart klúbbnum úti. Forseti hvatti menn til þátttöku í slíkum fundi.

Garðar kynnti námskeið um félagaþróun innan Rótarýhreyfingarinnar sem haldið verður þann 6. apríl n.k. þar sem danskur aðili Per Hylander mun sjá um fræðslu. Klúbburinn getur sent einn þátttakanda að kostnaðarlausu en námskeiðið mun standa á milli kl. 10 og 15. Áhugasamir hafi samband við Garðar eða Björn sem fyrst.

Að matarhléi loknu kynnti Bryndís Frosta Sigurjónsson og þakkaði honum fyrir að gefa sér tíma til að koma til að ræða sitt áhugamál og erindi sem hann nefnir ´Betra peningakerfi´. Frosti er rekstrarhagfræðingur sem hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja s.s. Nýherja og Marel og mun í vor leiða lista Framsóknarflokksins í Rvk-norður.

Frosti varpaði fram ýmsum spurningum um skuldir, óstöðugleika og verðbólgu og tilgreindi þessa þætti ásamt greiðslu vaxta sem meginástæður þess að hér fór allt á versta veg. Þungamiðjan í máli Frosta var sú að hér hefði bankar óáreittir fengið að búa til peninga úr engu. Máli sínu til stuðnings nefndi hann dæmisögu af lávarði í Sardiníu sem reið þar um héruð ásamt gestum og veitti vel en skildi í raun ekki eftir raunverulegt fé í landinu heldur aðeins tékka sem engum varð til góðs. Frosti fjallaði um blekkingarleik banka þ.s. lánað er út á það sem í raun er ekki til fremur en raunveruleg innlán eða sparnað viðskiptavina. Hann fór yfir afleiðingar þess að hleypa miklu fé í umferð í samfélaginu. Niðurstaðan er verðbólga eins og flestir vita og nefndi hann í þessu samhengi að ekki væri í raun vakin nægileg athygli á þessu en nýleg umræða um launahækkun til hjúkrunarfræðinga fengi gríðarlega athygli í fjölmiðlum með tilheyrandi verðbólgu-ótta-umræðu. Frosti lýsti því hvernig bankar magna sveiflur í peningamagni, skapa eignabólur og kreppur og sýndi s.k. ´sorgarþróunarlínurit´ máli sínu til stuðnings. Hvað er til ráða? Eigum við að gefast upp á sjálfstæðri peningastefnu og skella okkur á evruna eða dollarinn? Fastgengisstefna myndi henta eignafólki sem getur farið úr landi en ókostirnir bitna á launafólkinu sem eftir situr. Á endanum sjáum við aukna stéttskiptingu. Myntráð hefur verið nefnt sem einn kostur en það myndi kalla á mikinn gjaldeyrisforðasjóð. Eða eigum við að taka upp heildarforðakerfi? Það þýðir að bönkum öðrum en Seðlabanka yrði óheimilt að búa til peninga úr öðru en innistæðum; SB stýrir peningamagni í landinu og markmiðið væri verðstöðugleiki. Peningamagni væri stýrt í samræmi við stærð hagkerfisins. Það er mat Frosta að heildarforðakerfið myndi leiða til betri stjórnunar á peningamagni, lækkunar skulda, minni verðbólgu, áhlaup á banka yrðu úr sögunni og innistæðutryggingasjóður yrði óþarfi. Heildarforðakerfið kæmi sem sagt á móti s.k. Brotaforðakerfi þar sem bankar búa til peninga, stjórnlaust magn peninga er í umferð, skuldasöfnun viðgengst og verðbólga ríkir. Frosti hvatti í lokin áhugasama áheyrendur til þess að kynna sér bókina ´Modernizing money´ sem og vef sinn betrapeningakerfi.is.

Frosti fékk í lokin fjölda spurninga og augljóst að erindi hans náði eyrum fundarmanna og vakti áhuga, umræður og vangaveltur.

Frosti Sigurjónsson 12.3.2013Frosti Sigurjónsson 12.3.2013Frosti Sigurjónsson 12.3.2013Frosti Sigurjónsson 12.3.2013Frosti Sigurjónsson 12.3.2013