Haustferð Rótarýklúbbs Selfoss
Haustferð á Snæfoksstaði
Laugardaginn 22.9.2012 fór Rótarýklúbbur Selfoss í sína árlegu haustferð. Farið var frá Selfossi með rútu og ekið til Snæfoksstaða í Grímsnesi. Gengið var um skóginn þar undir leiðsögn Björgvins ritara klúbbsins. Þátttakendum var kennd einföld aðferð við hæðarmælinu á trjám og talningu trjáa per hektara. Komið var við í skemmu frá Skógræktarfélagi Árnesinga þar sem fram fór námskeið í húsgagnagerð. Komið við hjá sumarhúsi í eigu Skógræktarfélagsins og skoðað minnismerki þar um stjórnir og aðildarfélög Skógræktarfélagsins. Félagi okkar, Sigurður Þór bauð síðan ásamt Kristínu konu sinni, öllum hópnum í sumarbústað þeirra hjóna í landi Snæfoksstaða. Kristín hafði bakað hjónabandssælu og hellt á könnuna. Stallari bauð upp á léttar veitingar. Þarna átti hópurinn frábæra stund í einstaklega flottu húsi í mögnuðu umhverfi og eins í kyngimögnuðu indjánatjaldi sem Sigurður Þór hefur reist í hraungjótu. Þegar klukkan fór að halla í sjö eftir hádegi var haldið heim og það var kátur og sáttur hópur sem söng í rútunni alla leiðina heim, hópur sem var ánægður með vel heppnaðan dag. Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni og það eru fleiri myndir inn á myndasafninu.