Verkefni

Skógræktarstarf í Heiðmörk

Skömmu eftir að klúbburinn var stofnaður fékk hann úthlutað skógræktarreit í Heiðmörk. Félagar ásamt  fjölskyldum fóru í skógræktarferðir á vorin um nokkurra ára skeið en þær urðu æ stopulli.

Unnið að merkingu reitsins.Í maí 2013 héldu klúbbfélagar í skógræktarlundinn á nýjan leik og gróðursettu þar nokkur tré. Þá var einnig höfð viðdvöl í bækistöð Skógræktarfélags Reykjavíkur á Elliðavatni og fræðst um sögu Heiðurmerkur og skógræktarátakið í friðlandinu þar efra. Voru gróðursett fimmtíu birkitré í landnemaspildu klúbbsins á Elliðavatns-heiði, þar á meðal voru tvær tveggja metra háar birkiplöntur sem voru sérstaklega ræktaðar af kvæmum sem nefnast Embla og Kofoed. Bæði kvæmin hafa verið sérstaklega kynbætt af Þorsteini Tómassyni, félaga í Rótarýklúbbi  Breiðholts og er ilmbjörkin af Kofoed-kvæminu sú fyrsta sinnar tegundar sem gróðursett er. Markaði þessi ferð upphafið að nýjum fyrirheitum klúbbfélaga um áframhaldandi gróðursetningu á skógræktarsvæðinu í Heiðmörk. Á myndinni eru Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, verðandi forseti klúbbsins, Friðrik Alexandersson, forseti 2012-2013 og Gústaf Jarl Viðarsson, starfsmaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.