Fréttir

5.6.2018

Starfsskilafundur 2018

Einar Benjamínsson tók við embætti forseta klúbbsins á starfsskilafundi sem haldinn var á Grand Hotel Reykjavík hinn 4. júní. Fjölbreytt starfsemi á síðasta starfsári, sem Örn Gylfason, forseti klúbbsins og meðstjórnendur hans skipulögðu, var rifjuð upp.

Örn Gylfason, fráfarandi forseti, setti starfsskilafundinn og bauð félaga og maka þeirra velkomna ásamt öðrum gestum. Örn gerði grein fyrir ýmsum áhugaverðum málum sem stjórn klúbbsins beitti sér fyrir á starfsárinu sem lokið er.

Fjöldi gestafyrirlesara hefur heimsótt klúbbinn á fundum, farið var í ferðalög, hugað að skógræktarreit klúbbsins í Heiðmörk og stuðningur veittur Fjölbrautaskólanum í Breiðholti svo að nokkuð sé nefnt. Klúbburinn hefur kynnt starfsemi sína og verkefni Rótarýhreyfingarinnar með greinum í Breiðholtsblaðinu.  Einar Benjamínsson veitti forsetakeðju viðtöku og síðan flutti Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson erindi um Einar Benediktsson, skáld, og tengsl hans við Elliðavatn, þar sem klúbburinn hefur komið saman til skógræktarferða í Heiðmörk í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur sem hefur umsjón með húsakynnum á Elliðavatni.

Tónlistarmaðurinn Arnar Jónsson skemmti viðstöddum með gítarleik og söng en að lokum kvaddi Sigurður E. Guðmundsson sér hljóðs og minntist fullveldisins 1918 og annarra þátta í sjálfstæðisbaráttu landsmanna á síðustu öld. 

Klúbbfélagar, makar þeirra og gestir, nutu góðra veitinga og samveru þessa kvöldstund, sem var hin ánægjulegasta í alla staði.

Texti og myndir / MÖA