Fréttir
Haustlitaferðin 2017
Haustlitaferð Rótarýklúbbsins Reykjavík-Breiðholt sl. laugardag 30. september tókst með miklum ágætum. Farið var austur fyrir Fjall og útsýnis notið í haustsólinni yfir marglitan gróðurinn.
Ekið var í veðurblíðunni austur yfir Mosfellsheiði, um Grafning í Hagavík, þar sem áð var um stund. Síðan var haldið um Úlfljótsvatn í Ljósafossstöð, sem um þessar mundir á 80 ára afmæli. Þar býður Landsvirkjun almenningi að heimsækja skemmtilega og upplýsandi sýningu um raforkumál.
Ekið var áfram að Álftavatni og höfð viðdvöl hjá rótarýfélaga okkar Ara J. Jónassyni í sumarbústað fjölskyldu hans. Þaðan lá leiðin í Skálholt, þar sem annar rótarýfélagi okkar sr. Valgeir Ástráðsson beið hópsins í Skálholtskirkju og flutti þar afar fróðlegt erindi um sögu staðarins. Ferðinni lauk síðan með fyrirtækjaheimsókn að hætti rótarýfélaga. Farið var í glæsilegar verksmiðjur fyrirtækisins Límtré/Vírnet á Flúðum í Hrunamannahreppi.
Forráðamenn þess, þeir Guðmundur Magnússon og Sigmundur Brynjólfsson, veittu leiðsögn um fyrirtækið og að endingu voru bornar fram veitingar. Veðrið lék við ferðalangana allan daginn eins og glögglega kemur fram á meðfylgjandi myndbandi. Skoðið myndbandið!
Myndband, smellið hér:
Texti, myndir og myndband MÖA