Fréttir

3.10.2017

Fundur með umdæmisstjóra

Knútur Óskarsson, umdæmisstjóri, og eiginkona hans Guðný Jónsdóttir voru gestir á fundi klúbbsins 2. október sl. Knútur heimsækir alla rótarýklúbba í landinu nú á haustdögum og gerir rótarýfélögum grein fyrir stefnumálum sínum.

Á undan reglubundnum rótarýfundi ræddi hinn nýi umdæmisstjóri við stjórn klúbbsins um ýmis innri málefni. Að loknum léttum kvöldverði setti Örn Gylfason, forseti klúbbsins, fund og bauð umdæmisstjóra og konu hans velkomin. Knútur Óskarsson flutti erindi um stöðu Rótarýhreyfingarinnar, stefnumál nýs alþjóðaforseta og ýmis úrlausnarefni, sem kúbbarnir hérlendis standa frammi fyrir. Hjá flestum þeirra er brýn þörf fyrir fjölgun félaga og endurnýjun, m.a. með aukinni þátttöku kvenna og ungs fólks. Knútur hvatti til þess að rótarýfélagar byðu fjölskyldumeðlimum  og öðrum nánum ættingjum og félögum að ganga í klúbbana.

Í kynningu á helstu stefnumálum sínum á starfsárinu lagði Knútur áherslu á eftirfarandi: Að klúbbarnir gerðu nákvæmt bókhald yfir tíma og peninga sem félagarnir verja í ýmis verkefni í þágu Rótarý. Þessar upplýsingar myndu nýtast umdæminu og alþjóðahreyfingunni í allri umfjöllun um störf hreyfingarinnar. Klúbbfélagar eru hvattir til að gróðursetja eitt tré á mann. Efling starfsins í klúbbunum er mjög brýn, einnig fjölgun félaga, sérstaklega kvenna og ungs fólks.

Félagar og klúbbar séu virkir á sviði mannúðarmála í nær- og fjærumhverfi. Aukið ungmennastarf er einnig á forgangslista. Þá hvattti umdæmisstjóri klúbbana til að efla sjóði Rótarý og greiða til Rótarýsjóðsins a.m.k. 50 Bandaríkjadali á hvern félaga.

“Látum vita af starfi Rótarý,” sagði Knútur ennfremur. “Komum á framfæri því sem við erum að gera, uppfærum heimasíður, verum sýnileg og segjum frá.” Jafnfram tilkynnit Knútur að Rótarýdagurinn yrði haldinn 24. febrúar 2018 með það að markmiði að kynna störf klúbbanna um land allt sem og alþjóðlegu rótarýhreyfinguna fyrir íslenskum almenningi.

                                                                                                                                        Texti og myndir MÖA