Fréttir

1.2.2017

Landlæknir ræddi stefnumótun í heilbrigðismálum

Birgir Jakobsson, landlæknir, var gestur klúbbsins og fyrirlesari á fundi 30. janúar sl. Flutti hann afar fróðlegt erindi um heilbrigðismálin á Íslandi sem eru efst á baugi í þjóðmálaumræðunni um þessar mundir eins og kunnugt er.

Landlæknir rakti uppbyggingu og stöðu heilbrigðisþjónustunnar og hvar skórinn kreppir helst. Sagði hann kerfið brotakennt og nefndi sem dæmi að sérfræðingar kepptu við heilsugæsluna og leituðu út frá Landspítala háskólasjúkrahúsi til að fá betra vinnuumhverfi og betri tekjur. Þörfum krónískra sjúklinga og sjúklinga með margþætt vandamál væri ekki sinnt nægilega vel. Sérgreinakerfið þróast eftir aðgengi að nýjum sérfræðingum en ekki eftir þörfum sjúklinga.

„Ný heilbrigðisstefna er nauðsynleg en það er ekki nóg,“ sagði landlæknir. Hann sagði allt undir framkvæmd stefnunnar komið. Um hana þyrfti að nást pólitísk samstaða og hagsmunaaðilar, þ.e. sjúklingar og heilbrigðisstéttir, þyrftu að vera sáttir. Trúlega væri aukið fjármagn nauðsynlegt en það þyrfti að fara á rétta staði. Brýnt væri að skapa skilyrði sem laða hæft fólk til starfa í heilbrigðiskerfinu.

Þá nefndi Birgir Jakobsson helstu forgangsverkefni í heilbrigðiskerfinu. Efst á blaði væri að styrkja heilsugæsluna um allt land og breiðari þjónusta væri nauðsynleg. Nýtt háskólasjúkrahús þyrfti að vera í nánum tengslum við Háskóla Íslands. Efla þyrfti dag- og göngudeildaþjónustu við LHS og ennfremur sérfræðiþjónustu á landsbyggðinni á forsendum heimamanna. Þá þyrfti greiðslukerfi að vera hið sama fyrir sams konar þjónustu, óháð rekstarformi. Skilgreina ætti hlutverk heilbrigðisstofnana, ábyrgð þeirra á aðgengi og gæðum.

Það kom einnig fram í máli landlæknis að heilbrigðisþjónustu ætti að bjóða út samkvæmt kröfulýsingu og setja ætti reglur um aukastörf starfsfólks og fækka hlutastörfum.

Landlæknir svaraði fyrirspurnum að loknu erindi sínu. Umræðuna um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni bar m.a. á góma og var landlæknir spurður um þróun einkavæðingar í heilbrigðisþjónustu á hinum Norðurlöndunum, löndunum, sem við kjósum helst að bera okkur saman við eins og oft er haft á orði í pólitískri umræðu hér á landi. Birgir Jakobsson svaraði út frá reynslu sinni af störfum að heilbrigðisþjónustu í Svíþjóð. Fram kom að milli 20 og 30% heilbrigisþjónustunnar þar í landi væri nú í einkarekstri en hefði verið sáralítið hlutfall fyrir 20 árum.

„Ég er ekki hræddur við ákveðið sambland af opinberri og einkarekinni heilbrigðisþjónustu,“ sagði landlæknir. 

                                                                                                                                                               Texti og myndir MÖA