Fréttir

30.11.2016

Kvöldverður í upphafi aðventu

Félagar í Rkl. Reykjavík Breiðholt ásamt mökum og öðrum gestum áttu ánægjulega stund saman í upphafi aðventunnar í Setrinu, veitingasal Grand Hotel Reykjavík.

Þessi reglulegi klúbbfundur var með yfirbragði hátíðarkvöldverðar enda vandað sérstaklega til veitinga. Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, forseti klúbbsins, setti fund og bauð félaga og gesti velkomna en síðan var borinn fram kvöldverður sem var nokkuð jólalegur á að líta og bragðaðist vel.

Magnús Hreggviðsson, formaður hátíðarnefndar klúbbsins, flutti stutta hugvekju í anda aðventunnar og rifjaði upp minningar frá bernskudögum, tilhlökkun og ýmislegt veraldlegt amstur sem fylgir jólaundirbúningi nú á dögum og hefur farið stigmagnandi með gróskumikilli verslun og viðskiptum. Magnús lagði hins vegar áherslu á hinn sanna boðskap jóla og hvernig við meðtökum hann.

„ Sem betur fer nær friður og kærleiksboðskapur jólanna inn til okkar. Stundum teljum við okkur ekki alveg vita út á hvað þetta allt gengur. Þó vitum við, að strengur í hjarta okkar er snertur. Því miður þá fær hann ekki of oft að njóta sín,“ sagði Magnús undir lok hugleiðingar sinnar. „Þegar allt er eðlilegt á jólunum, sérstaklega aðfangadagskvöld, þá hverfum við um stund inn í okkur sjálf og setjumst við jötuna í Betlehem og hugleiðum dýpri rök tilverunnar, sem við því miður gerum of sjaldan. Jólin snerta okkur öll vegna þess að óhjákvæmilega hvarflar hugurinn til bernskunnar, þegar allt var nýtt og spennandi og við höfðum ekki tamið okkur það sem ég leyfi mér að kalla kaldhæðni og gagnrýni hins fullvaxta og þroskaða manns. Við syngjum samt á jólanótt þegar við tökum undir með englunum: „Dýrð sé guði í upphæðum.“ Mig langar að biðja okkur öll, sem hér erum inni, að halda heilög jól og gefa okkur á vald boðskapnum um frið á jörðu  og frið í hjarta og finna, þó ekki væri nema eitt andartak, hina horfnu paradís í okkur sjálfum þar sem friður, hamingja og jafnvægi ríkir.“

Ung söngkona, Sesselja Magnúsdóttir, kom fram og söng erlend dægurlög við góðar undirtektir. Hefur Sesselja áður heimsótt klúbbinn og sungið við sambærilegt tækifæri og nú.        MÖA