Í þungum þönkum
Starfið í rótarýklúbbnum kallar á samheldni og samráð um hin ýmsu framkvæmdatriði sem áhrif hafa á félagslífið og starfsandann sem ríkir á fundum. Markmiðið er að allir njóti samverunnar og félagsskaparins í bráð og lengd.
Félagarnir í Rkl. Reykjavík Breiðholt standa frammi fyrir áleitnum spurningum og áskorunum. Eftir 33 ára starf klúbbsins má merkja margvíslegar breytingar. Meðalaldur félaganna hefur hækkað mikið og brýn þörf er á nýliðun. Það er og samdóma álit allra að fjölga þurfi konum í klúbbnum. Nú stendur forysta klúbbsins frammi fyrir því að leggjast yfir þessi úrlausnarefni í samvinnu við félagana og ákveða næstu skref.
Klúbbstarfið og fjölgun félaga hefur verið á dagskrá síðustu funda klúbbsins og hafa starfshópar myndað sér skoðanir að loknum gagnlegum umræðum. Fundarstaður, fundartími og yfirbragð fundahaldsins eru atriði sem einnig koma til skoðunar. Ennfremur markmiðssetning og val verkefna í þágu nærumhverfisins í Breiðholti. Afraksturinn af þessari vinnu verður til almennrar umræðu á næstu fundum. Meðfylgjandi myndir staðfesta að félagarnir eru alvarlega hugsi um hvert stefni með þessi mikilvægu mál sem snerta vegferð klúbbsins svo náið.
Texti og myndir MÖA