Fréttir

28.9.2016

Umdæmisstjórinn í heimsókn

Guðmundur Jens Þorvarðarson, umdæmisstjóri íslenska rótarýumdæmisins 2016-2017, og eiginkona hans Svava Haraldsdóttir heimsóttu klúbbinn og sátu fund hans mánudaginn  26. september sl. Umdæmisstjórinn heimsækir alla rótarýklúbba í landinu þessar vikurnar og á næstu mánuðum. Fundurinn í Rkl. Reykjavík Breiðholt var liður í þeirri dagskrá.

Fyrir klúbbfundinn sat umdæmisstjóri vinnufund með Sigurlaugu Hrund Svavarsdóttur, forseta klúbbsins, og meðstjórnarmönnum hennar, þar sem skipst var á skoðunum við umdæmisstjórann og gerð grein fyrir klúbbstarfinu. Sameiginleg viðfangsefni hreyfingarinnar og málefni umdæmisins hér á landi voru einnig til umræðu.

Áður en umdæmisstjóri hóf mál sitt flutti sr. Valgeir Ástráðsson þriggja mínútna erindi og helgaði það hugleiðingu um félagaþróun í klúbbnum, ástundun, hækkun meðaldaldurs og nauðsynlega endurnýjun. Hinrik Bjarnason tók ennfremur til máls og sagði frá velheppnaðri haustlitaferð klúbbsins sl. laugardag 24. september að Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, heimsókn í stöðvar Sláturfélags Suðurlands á Hvolsvelli og ferð í Grímsnesið til líta inn hjá klúbbfélaganum Benóný Ólafssyni og eiginkonu hans Jenettu Bárðardóttur í sumarbústað þeirra við Kiðjaberg.

Hinrik mælti svo, og flutti eigin kveðskap að auki:

„Eftir magnaða goslýsingu á Þorvaldseyri og minnisverða stund með Ólafi bónda, hélt Sverrir Ólafsson vakandi andlegri meðvitund rútufélaganna með flutningi ljóðmála úr Kompu Hrafns, eftirtektarverðu safni af ljóðrænum veðrabrigðum í hugarheimi klúbbskálda, einkum Sverris og Stefáns heitins Aðalsteinssonar, og tileinkað Hrafni Pálssyni.

Úr Hrafnhendu fengum við hratt af vör

hrynsterkar, djarfar vísur.

Engar réðu  þar reyndar för

raunveruleikaskvísur.

 

Ort voru fyrrum ágæt ljóð

okkar klúbbs á fundum.

Ekki finnst þó ást né fljóð

í þeim ljóðastundum.

 

Margan kveðskap mergpínd þjóð

mátti þola verri.

Við skulum þakka þessi ljóð

þjóðmæringnum Sverri.

 

Guðmundur Jens umdæmisstjóri flutti yfirgripsmikla kynningu á stefnumálum núverandi alþjóðaforseta Rótarý, John Germ frá Tennessee, stöðu hreyfingarinnar varðandi félagaþróun, fjármögnun sjóða og alþjóðleg verkefni að mannúðarmálum. Auk þess ræddi umdæmisstjórinn um ástand og horfur í málum  Rótarý hér innanlands. Fram kom í máli hans, að árið 2015 hafi Rótarýfélagar í heiminum verið 1.228.094 og þar af 251.569 konur. Þá starfaði hreyfingin í 552 umdæmum í 221 landi. Félögum í rótarýklúbbum fjölgaði um 65.000 milli ára í Asíu en fækkaði um 62.000 í Bandaríkjunum, Kanada og löndum í Karabíska hafinu. Í Evrópu, Afríku og Mið-Austurlöndum var fjölgunin 20.900 manns samtals. Í umfjöllun sinni um stöðu íslensku klúbbana varpaði Guðmundur Jens fram spurningunni: „Hvernig kynnum við klúbbinn best?“ Umdæmisstjórinn kvað það gerast með því að rækta og treysta samfélagslegt hlutverk Rótarý, halda fram alþjóðaframlagi Rotary International, bjóða fram áhugaverða og öfluga klúbbdagskrá, virkja félaga til sameiginlegra verkefna og halda úti virkri og lifandi heimasíðu.

Rótarýdagurinn, sem haldinn hefur verið sl. tvö ár, er liður í því að vekja aukna almenna athygli á starfsemi Rótarý innanlands. Ákveðið hefur verið að næsti Rótarýdagur umdæmisins og klúbbanna um land allt verði haldinn 6. maí 2017.

Ræða umdæmisstjóra verður ekki rakin hér í einstökum atriðum enda gerir hann grein fyrir áhersluatriðum sínum á fundunum með klúbbunum, sem hann heimsækir á þessu hausti og fram á vetur.

Í Í fundarlok afhenti Guðmundur Jens forseta klúbbsins Sigurlaugu Hrund Svavarsdóttur borðfána með einkunnarorðum núverandi alþjóðaforseta Rótarý:  „Rotary Serving Humanity“, ásamt barmmerki af sama toga.

                                                                                                                                                                 Texti myndir MÖA