Fréttir

13.9.2016

Skiptinemi sagði frá ársdvöl sinni erlendis

Berglind María Sigurbjörnsdóttir, sem var skiptinemi á vegum Rótarý á síðasta skólaári, kom á fund klúbbsins mánudaginn 12. september og sagði frá dvöl sinni og námi í Camden í Maine-ríki í Bandaríkjunum. Rkl. Reykjavík Breiðholt hafði milligöngu um að Berglind María tók þátt í nemendaskiptunum. Flutti hún klúbbnum þakkir fyrir stuðninginn.

Berglind María, sem var nemi í efsta bekk miðskóla, skýrði á skemmtilegan hátt frá reynslu sinni af skólagöngunni og kynnum sínum af Ameríkönum. Hafði hún tekið saman kynningarefni með ljósmyndum og myndböndum sem hún sýndi með frásögn sinni. Hún hafði greinilega haft mikla ánægju af dvöl sinni vestanhafs enda áhugasöm um námstilboð og virkur þátttakandi í félagslífi skólans. Berglind María sagði m.a. frá aganum, sem hún hefði kynnst í skólanum. Allt skólastarfið einkenndist af góðu skipulagi og miklli reglusemi. Þá fór hún lofsamlegum orðum um fjölbreytileikann í náminu og miklum tækifærum til þátttöku í félagslífi af ýmsum toga, eins og íþróttum og leiklistarstarfi. Nokkrir meðal félaga klúbbsins, sem verið höfðu skiptinemar í Bandaríkjunum fyrir 30-50 árum, höfðu á orði að lýsingin á skólastarfinu hljómaði kunnuglega og margt væri greinilega með sama sniði og forðum daga.

Berglind María lét mjög vel af kynnum sínum af fólkinu sem hún kynntist og þá ekki síst gestgjöfunum, sem hún dvaldist hjá. Hún fór víða um Bandaríkin, meðal annars þvert yfir landið til Kaliforníu með viðkomu á ýmsum áhugaverðum stöðum eins og t.d. Grand Canyon.

Í máli Berglindar Maríu kom fram að nemendaskiptin á vegum Rótarý væru til mikillar fyrirmyndar og sagðist hún myndu eindregið hvetja jafnaldra sína til að taka þátt í þeim.

                                                                                                    MÖA