Fréttir

6.8.2016

Gróðursetning síðsumars í Heiðmörk

Margir rótarýklúbbar hafa skógrækt á verkefnaskrá sinni. Rk Breiðholt er einn þeirra. Hann annast ræktunarreit í Heiðmörkinni fyrir ofan Reykjavík.

Breiðholtsklúbburinn fékk úthlutað skógræktarreit í Heiðmörkinni fyrir u.þ.b. 30 árum. Ræktunin hefur gengið misvel eftir tíðarfari og áhuga klúbbfélaga.  Síðustu árin hefur verið hugað að reitnum reglulega og bætt við plöntum.

Nokkir félagar tóku sig til í hádeginu í gær og fóru í Heiðmörk undir fararstjórn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, fyrrv. forseta klúbbsins, sem á sæti í stjórn Skógræktarfélags Reykjavíkur. Í hópnum voru auk Vilhjálms þeir Þorvaldur Valsson, Einar Benjamínsson, Markús Örn Antonsson og Örn Gylfason.

Gústaf Jarl Viðarsson, sérfræðingur Skógræktarfélagsins, var liðsmönnum til halds og trausts við verkin og skaut jafnframt að ýmsum fróðleik um gróðurríkið í Heiðmörk. Gústaf hafði sérvalið plöntutegundir sem hentuðu til gróðursetningar innan um þróttmikinn sumargróðurinn í reitnum. Hann var með allra mesta móti vegna hagstæðra vaxtarskilyrða í sumar.