Fréttir

29.6.2016

Nýr forseti settur í embætti

Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, skólastjóri Fellaskóla í Breiðholti, tók við embætti forseta klúbbsins á starfskilafundi hans sem haldinn var í veitingahúsinu Nauthóli að kvöldi þriðjudagsins 28. júní. Sigríður K. Ingvarsdóttir, sem verið hefur forseti klúbbsins síðastliðið starfsár, gerði grein fyrir skýrslu stjórnar og fjölbreyttri dagskrá sem stjórnin stóð fyrir á starfstíma sínum.

Sigríður fráfarandi forseti, setti fundinn og bauð klúbbfélaga og maka velkomna en síðan tók Friðrik Alexandersson við fundarstjórn. Borinn var fram kvöldverður og undir honum flutti Sigurður E. Guðmundsson, einn af stofnfélögum klúbbsins og fyrrverandi forseti, hugvekju og minni kvenna.

Ung söngkona, Sesselja Magnúsdóttir, kom fram og söng létt lög frá ýmsum heimssvæðum og tímabilum við góðar undirtektir enda flutningur hennar og framkoma einkar aðlaðandi og skemmtileg.

Aðaldagskráratriði fundarins var ræða Sigríðar K. Ingvarsdóttur, fráfarandi forseta, um störf klúbbsins á starfsárinu sem lýkur nú hinn 1. júlí.  Færði hún samstarfsfólki sínu í stjórn klúbbsins álúðarþakkir fyrir gott og árangursríkt samstarf. Með Sigríði störfuðu í stjórn þau Elías Ólafsson, Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, Eyrún Ingadóttir, Grímur Valdimarsson , Magnús Hreggviðsson og Ari Jónasson.

Góðir fyrirlesarar og fyrirtækjaheimsóknir

„Það sem stendur upp úr frá starfsárinu, og ég held að flestir félagar séu sammála mér um, er sú endurmenntun  sem við fáum á hverjum rótarýfundi auk þess að borða góðan mat í góðum félagsskap,“ sagði Sigríður. „Við höfum verið einstaklega heppin í vetur með fyrirlesara og fengið fróðleik um margvísleg málefni líkt og við værum í opnum háskóla. Auk fyrirlestranna höfum við verið reglulega með þriggja mínútna erindi þar sem félagar hafa ýmist sagt frá störfum sínum eða áhugamálum. Síðan fórum við á tvær leiksýningar í vetur. Á sýninguna “Um það bil” og á “Mamma mia”.

Sigríður fjallaði einnig um tvær skemmtiferðir sem klúbburinn efndi til. Haustferð var farin um Hvalfjörð og Borgarfjörð undir forystu Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og ferðanefndar sem hann veittti forstöðu. Höfð var viðkoma m.a. í stríðsminjasafninu í Hvalfirði og á landbúnaðarsafninu á Hvanneyri. Vorferð klúbbfélaga, maka, barna og barnabarna var farin í maí. Útilífsmiðstöð skáta við Úlfljótsvatn var heimsótt að þessu sinni  og tókst heimsóknin með ágætum undir traustri leiðsögn klúbbfélagans Gríms Valdimarssonar og ferðanefndarinnar en Grímur er nýtekinn við sem formaður Úlfljótsvatnsráðs.

Klúbburinn fór í þrjár fyrirtækjaheimsóknir, til Icelandair, Landsvirkjunar og Ölgerðarinnar. Þær  voru velheppnaðar og fróðlegar þar sem einstaklega vel var tekið á móti klúbbnum og boðið upp á veglegar veitingar og kynningar.

„Leiðir Fjölbrautaskólans í Breiðholti og Breiðholtsklúbbsins hafa legið saman frá upphafi,“ rifjaði Sigríður upp.“Það var einmitt skólameistari skólans Guðmundur Sveinsson sem kallaði menn saman til að stofna rótarýklúbbinn á sínum tíma. Vegleg blómaskreyting var færð skólanum í tilefni 40 ára afmælishátíðar hans sem haldin var 3. október.“ 

Venju samkvæmt  gaf klúbburinn veglegar peningargjafir til útskriftarnema bæði við útskrift í desember og á vormánuðum. Klúbburinn hefur veitt námsverðlaun við útskrift Fjölbrautaskólans í Breiðholti í rúm 20 ár í minningu Jóns Stefáns Ragnarssonar, tannlæknis, eins af stofnfélögum klúbbsins.

Verðlaunin eru veitt þeim sem skólinn telur hafa sýnt lofsverða ástundun og framfarir í námi auk þess að vera virkur í félagslífi innan skólans. Um haustið fékk Hallfríður Erla Pétursdóttur af textílbraut skólans þessi verðlaun og Sigrún María Jónsdóttir af félagsfræðibraut nú í vor.

Ráðstefna á Rótarýdeginum

Rótarýdagurinn var haldinn hátíðlegur þann 27. febrúar hjá rótarýklúbbum víðsvegar um landið. Breiðholtsklúbburinn efndi til samstarfs við rótarýklúbbinn í Árbæjarhverfi um ráðstefnu og kynningardagskrá í Fylkisheimilinu.

Ráðstefnan var öllum opin og var markmiðið að kynna starfsemi Rótarý fyrir almenningi. "Fjölmenning" var yfirskrift Rótarýdagsins að þessu sinni og af því tilefni voru námsmannastyrkjum Rótarý og nemendaskiptum gerð sérstök skil. Félagar úr báðum klúbbunum sögðu frá markmiðum Rótarýhreyfingarinnar og starfemi klúbbanna. Fjölmargir félagar komu að undirbúningi ráðstefnunnar eins og Hinrik Bjarnason sem af röggsemi sinni sá um fundarstjórnina. Ingvar Pálsson fyrrv. forseti Breiðholtsklúbbsins, kynnti starfsemi klúbbsins, Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir, verðandi forseti, sagði frá Rótarýhreyfingunni og sagnfræðingurinn Eyrún Ingadóttir, ritari klúbbsins, fræddi gesti um sögu Elliðaárdalsins, hins sameiginlega útivistarsvæðis hverfanna tveggja. Þá söng Gerðubergskórinn, sem klúbburinn hefur styrkt undanfarin ár. Rótarýdeginum og Rótarýhreyfingunni almennt voru gerð góð skil í fjölmiðlum. Birtar voru greinar frá báðum forsetum klúbbanna í Fréttablaðinu, hverfisblöðunum í Breiðholts- og Árbæjarhverfum auk þess sem hengdar voru upp auglýsingar víða í báðum hverfunum.

Undir lok ræðu sinnar gerði Sigríður félagaþróun að umtalsefni og kvað nauðsynlegt að leggja á það áherslu næstu ár að ná inn nýjum félögum. Í dag eru klúbbfélagar 63 talsins, 54 karlar og 9 konur.  Af þessum 63 eru 43 virkir félagar og 20 aldvirkir.

Að endingu sagði Sigríður frá stjórnarkjöri  fyrir starfsárið 2016-2017 sem fram fór 23. nóvember sl. Áður höfðu klúbbfélagar tilnefnt frambjóðendur til stjórnarkjörsins. Niðurstöður kosninganna urðu þær, að Örn Gylfason var kjörinn verðandi forseti, Viðar Ólafsson, dagskrárstjóri, Einar Benjamínsson, ritari, Eyrún Ingadóttir, gjaldkeri, og Jónbjörg Sigurjónsdóttir stallari. Áður höfðu klúbbfélagar kosið forseta næsta starfsárs sem er Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir. Þá mun Sigríður sitja í stjórn klúbbsins sem fráfarandi forseti.

„Nú mun ég að loknu máli mínu skrýða nýjan forseta embættistákninu, sem er forsetakeðjan. Hún hefur verið í öruggri varðveislu minni í eitt ár og hef ég verið afar stolt að bera hana,“ sagði Sigríður að endingu.“Ég hef nú þegar látið grafa nafn mitt á kveðjuna fyrir þetta starfsár og lét merkja í leiðinni nafn Sigurlaugar fyrir komandi starfsár þar sem mun ódýrara var að merkja tvö spjöld en eitt. Bið ég nýjan forseta Rótarýklúbbsins Reykjavík – Breiðholt að standa upp og taka við keðjunni.“

Samfélagsmál í brennidepli hjá Sigurlaugu

Í ávarpi sínu flutti Sigurlaug Hrund þakkarkveðjur frá Enith Calderón Benitez, skiptinema frá Ekvador, sem dvaldist hér á vegum klúbbsins síðastliðið skólaár. Bjó hún á heimili Sigurlaugar og fjölskyldu síðari helming dvalartímans en áður hjá klúbbfélaganum Sigurbirni Gunnarssyni og fjölskyldu hans. Enith hélt af landi brott að morgni 28. júní eftir velheppnaða dvöl sína hér.

Sigurlaug sagðist vilja leggja áherslu á menningar- og samfélagsmál í starfi klúbbsins. Fjölgun félaga og efling innra klúbbstarf eru meðal forgangsatriða hjá henni.  Æskulýðsstarf er Sigurlaugu ofarlega í huga ennfremur og vill hún að klúbburinn styrki börn og unglinga í Breiðholti til aukinnar þátttöku í félags- og tómstundastarfi.

„Það eru mörg brýn samfélagsverkefni, sem klúbburinn gæti verið að sinna,“ sagði Sigurlaug. „En í mínum huga, og það skýrir sig kannski sjálft út frá starfi mínu, finnst mér ekkert mikilvægara en að undirbúa börn fyrir virka þátttöku í samfélagi famtíðarinnar. Í Breiðholti eru því miður mörg börn sem þurfa stuðning. Þetta var eiginlega ástæðan fyrir því að ég gekk í klúbbinn á sínum tíma.“

Sigurlaug sagðist ekki gera þetta ein og sjálf. Með henni í stjórninni væri kraftmikið og gott fólk sem myndi leggja sitt af mörkum til að hrinda í framkvæmd því sem klúbburinn vildi helst gera.

„Það er hvorki forseti eða stjórn sem gerir starfið í rótarýklúbbi að veruleika,“ sagði Sigurlaug. „Það er virk þátttaka félaganna og þessi ákveðna skuldbinding sem fólk undirgengst þegar það velur að taka þátt í svona félagsstarfi. Þess vegna verður svo mikilvægt að við gerum þetta allt í sameiningu. Að þjóna öðrum með bros á vör.“                             

Texti og myndir MÖA