Fréttir

2.12.2015

Hátíðarfundur á aðventunni

Það ríkti sannkallaður hátíðarbragur á fyrsta fundi klúbbsins á aðventunni. Þetta var jólafundur klúbbfélaga og maka þeirra og var vel vandað til undirbúnings með góðri dagskrá og jólahlaðborði.

Elías Ólafsson, fyrrverandi forseti, setti fund í fjarveru forseta. Skipaði hann Svein Hannesson veislustjóra og tókst Sveini vel upp sem jafnan áður er hann hefur tekið slíkt hlutverk að sér.

Þá flutti Sveinn H. Skúlason, fyrrverandi umdæmisstjóri, hugvekju með skírskotun til hugsjóna hinna fyrstu rótarýmanna og hvernig þær ríma við boðskap jólahátíðarinnar sem framundan er.

Gengið var til hlaðborðs með glæsilegu úrvali af köldum og heitum réttum að hætti Grand Hótel Reykjavík.

Sveinn Hannesson, veislustjóri, flutti síðan athyglisverða ræðu, þar sem hann fjallaði um og bar saman hin ólíku trúarbrögð. Hann lagði áherslu á margt hið sameiginlega með þeim en undirstrikaði jafnframt vægi fyrirgefningarinnar í kristinni trú umfram það sem er að finna í öðrum trúarbrögðum.

Guðmundur Kristinn Ingvarsson, formaður hátíðarnefndar, stjórnaði síðan happdrætti og fékk sér til aðstoðar Enith Calderón, skiptinema frá Ekvador, sem hér dvelst á vegum klúbbsins. Dregin voru út gjafakort fyrir glæsilegum vinningum.

Sigurður E. Guðmundsson, einn af stofnfélögum klúbbsins, sem vinnur að doktorsritgerð sinni við Háskóla Íslands 83 ára gamall, rifjaði upp endurminningar af samstarfi við annan klúbbfélaga, Jón heitinn Böðvarsson, fyrrum skólameistara.



Í lok fundar stjórnuðu þeir séra Valgeir Ástráðsson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fjöldasöng við undirleik Hjartar Jóhannssonar, píanóleikara, sem skemmt hafði viðstöddum með píanóleik meðan á borðhaldinu stóð. 


                         Texti og myndir MÖA