Fréttir

4.11.2015

Fyrirtækjaheimsókn hjá Icelandair

Icelandair hefur um árabil verið í fremstu röð íslenskra fyrirtækja og borið hróður lands og þjóðar víða um álfur. Fyrirtækið hefur haslað sér völl á alþjóðlegum samkeppnismarkaði og átt að fagna aukningu í flutningum umfram meðaltalið hjá keppinautum þess í N-Atlantshafsflugi á síðustu árum. Hin gríðarlega fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi og tekjuaukning fyrir þjóðarbúið er ekki síst Icelandair að þakka. Það var því ákaflega áhugavert fyrir félaga í Rkl. Reykjavík-Breiðholt að fá tækifæri til að heimsækja Icelandair hinn 2. nóvember og hlýða á fyrirlestur Birkis Hólm Guðnasonar, forstjóra fyrirtækisins.

Birkir Hólm Guðnason hefur starfað í 15 ár í þágu Icelandair, m.a. í Bandaríkjunum, Þýsklandi og Danmörku. Hann varð framkvæmdastjóri fyrirtækisins árið 2008.  Á tímanum sem síðan er liðinn hafa orðið umtalsverðar breytingar í rekstri félagsins sem Birkir gerði nánar grein fyrir.

Icelandair Group samanstendur af níu fyrirtækjum og er Icelandair þeirra stærst með tæplega 2000 starfsmenn á sl. sumri og mesta veltu. Með endurskipulagningu og breyttu skipuriti 2008 var áhersla lögð á hlutverk millistjórnenda í rekstrinum.

„Með þessu vildum við auka ábyrgð og vægi millistjórnendanna,“ sagði Birkir. „Þeir eru sérfræðingar  á sínum sérsviðum, taka ákvarðanir og halda stjórnendunum upplýstum.“

Stefnumótun helst því inni í fyrirtækinu og er minna leitað til ráðgjafa. Afleiðingar hins alþjóðlega bankahruns og efnahagsástandins á Íslandi 2008 ollu því að nærri 400 manns var sagt upp störfum hjá Icelandair. Árið 2006 höfðu stöðugildi verið 1265 og voru nokkru færri sex árum seinna. Á síðustu árum hefur félagið vaxið mikið rekstrarlega og starfsfólki fjölgað vegna verulegrar aukningar í flutningum.

Íslensk áhersla fyrir erlenda farþega

Um 85% af öllum farþegum Icelandair eru útlendingar á leið yfir Atlantshafið með millilendingu á Íslandi. Félagið hefur valið íslenskt þema til að höfða til farþega sinna og vekja áhuga þeirra á Íslandi sem áhugaverðum stað til að heimsækja síðar meir með fjölskyldu og vinum.  „Refreshing the Icelandic travel experiencce“ heitir það á erlendu máli. Þá er hugað að öllum mögulegum hlutum sem þýðingu hafa, t.d. útliti farþegarýmis í flugvélunum, mat og drykk um borð, tónlist, textum á servíettum og dagskrám í skemmtikerfi.

„Við erum stolt af því að vera íslensk,“ sagði Birgir. „Það á að vera einstök upplifun fyrir farþegann að fljúga með okkur til Íslands.“

Icelandair hefur orðið að bregðast skjótt við skyndilegum breytingum á síðustu 14 árum. Hryðjuverkaárásirnar vestan hafs, bankahrunið og eldgosið í Eyjafjallajökli kallaði á skjót viðbrögð. Hið síðastnefnda olli því að í ljósi brezkrar veðurspár um að Keflavíkurflugvöllur myndi lokast næsta dag var brugðist við með sex tíma fyrirvara og 200 starfsmenn Icelandair fluttir til Glasgow, þar sem starfsemin var hafin daginn eftir. Menn vildu vera við öllu búnir. Í tólf daga gerði Icelandair út 12 flugvélar frá Glasgow.

 Vinsæll vinnustaður

Icelandair er vinsæll vinnustaður. Um 1500 manns sem sóttu nýverið um flugþjónastörf, 200-300 sækja að jafnaði um hvert starf sem auglýst er. Starfsmannavelta er aðeins rúmlega 1% og meðalstarfsaldur hjá félaginu er 19 ár.

Árið 1990 voru áfangastaðir félagsins erlendis 12 að tölu. Tíu árum seinna voru þeir 18, orðnir 27 árið 2010 og á næsta ári verða þeir 42.

Miklar fjárfestingar fólust í endurbótum á flugvélum á árunum 2008 og 2009. Skemmtikerfi var endurbætt, ný sæti sett í vélarnar og fótarými aukið með því að sætum var fækkað um eina röð. 50% af farþegum Icelandair fljúga milli Evrópu og N-Ameríku og skipta bara um vél í Keflavík. Eini snertipunktur við þá er um borð í vélunum og í biðstofum. Kannanir og mælingar á viðhorfum þeirra til þjónustunnar eru gerðar reglulega og mikið á þeim byggt. Þess vegna er Íslandsáherslan svo áberandi með það að markmiði að viðskiptavinirnir komi aftur. „Stemmningsljós“ hafa verið sett í vélarnar. Norðurljósalitir hafa vakið athygli og farþegarýmið sýnist stærra fyrir bragðið. Þá er komið Internetsamband í farþegarýmið.

Nýjar flugvélar, nýir áfangastaðir

Til marks um þóunina benti Birkir á að árið 2006 hefði Icelandair farið 4600 flug, 2012 voru þau 6000, árið 2014 voru þau 8800, á þessu ári rúmlega 10500 en á næsta ári verða 11400 flug. Fyrir 2009 voru aldrei fleiri en 12 flugvélar í rekstri Icelandair. Á næsta ári verða vélarnar 26, 24 Boeing 757  og tvær Boeing 767 breiðþotur. Icelandair á pöntun fyrir 16 nýjum Boeing 737 MAX sem verða afhentar á árabilinu 2018 til 2022.

Farþegaþróun hjá Icelandair hefur verið eftirtektarverð. Það tók 56 ár að ná einni milljón farþega á ári og síðan 16 ár að komast upp í tvær milljónir. Á síðustu fimm árum hefur aukning verið úr 1,3 milljónum farþega í 3 milljónir á þessu ári.  

Nýir áfangastaðir á næsta ári eru Chicago frá 16. marz, Montreal frá 19. maí og Aberdeen frá marzmánuði.  Aukning sætaframboðs á næsta ári verður 18% , aðallega vegna aukinnar tíðni í flugi til eldri áfangastaða.  Aðeins 4% má rekja til þeirra nýju.         MÖA