Fréttir

21.11.2015

Gerðubergskórnum afhentur ferðastyrkur

Um nokkurra ára skeið hefur Rkl. Reykjavík-Breiðholt styrkt Gerðubergskórinn í Breiðholti vegna ferða hans til að koma fram og syngja við ýmis tækifæri. Enn á ný hefur klúbburinn veitt kórnum styrk í þessu skyni og var hann afhentur í Gerðubergi föstudaginn 20. nóvember.

Sigríður Kr. Ingvarsdóttir, forseti klúbbsins, gerði grein fyrir styrkveitingunni og sagði hún að klúbburinn hefði styrkt með hlýhug starf Gerðubergskórinn og væri afar ánægjulegt að geta haldið þeirri styrkveitingu áfram á þessu starfsári. Flutti hún Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, fyrrverandi forseta klúbbsins, þakklæti fyrir vaska framgöngu í tengslum við utanumhald vegna þessa samfélagsverkefnis.  

 „Það sem hefur vakið áhuga okkar í klúbbnum varðandi áframhaldandi styrkveitingu til kórsins er dugnaður og framlag kórsins til betra og skemmtilegra mannlífs, ekki bara í Breiðholti heldur einnig á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni,“ sagði Sigríður í ávarpi sínu. „Kórinn hefur sungið víða m.a. á hjúkrunarheimilum, í kirkjum, skólum, félagsmiðstöðvum fyrir aldraða, á Breiðholtsdögum og víðar.“

Sigríður sagði að félagar í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Breiðholt hefðu hugsað með hlýhug til Gerðbergskórsins þegar farið var af stað með sérstaka söfnun fyrir styrkveitingu til kórsins, og á starfsári klúbbsins 2015-2016 hefðu safnast kr. 115.000.  Um leið og Sigríður Kr. Ingvarsdóttir afhenti styrkinn, flutti hún góðar kveðjur frá öllum félögum klúbbsins og fyrir þeirra hönd óskaði hún kórnum innilega til hamingju með gróskumikið starf, fallegan söng og þann dugnað og jákvæðan vilja sem býr í kórnum og kórstjórnanda.  Óskaði hún Gerðubergskórnum góðs gengis um alla framtíð og þakkaði fyrir góðar móttökur.

Inga G. Guðmannsdóttir, formaður Gerðubergskórsins,veitti styrknum viðtöku og flutti rótarýklúbbnum þakkir fyrir mikla vinsemd og viðurkenningu á umliðnum árum. Í máli Ingu kom fram að kórinn hefur verið að eflast undanfarið. Nýlega gengu 7 nýir félagar, karlar og konur, til liðs við kórinn og eru kórfélagarnir alls 30.

Gerðubergskórinn hefur unnið frábærlega vel allt frá því að kórstarfið hófst í Gerðubergi árið 1986. Haustið 1994 kom kórstjórnandinn, Kári Friðriksson, tónmenntakennari, til starfa. Undirleik með kórnum annast Árni Ísleifsson, píanóleikari.

Við athöfnina í Gerðubergi söng kórinn nokkur lög að viðstöddum félögum úr rótarýklúbbnum og að endingu var borið fram kaffi og pönnukökur.

                                                                                                                                                                 Texti og myndir MÖA