Afmæliskveðja til FB 40 ára
Þann 3. október hélt Fjölbrautaskólinn í Breiðholti upp á 40 ára starfsafmæli sitt og var öllum félögum Rótarýklúbbsins Reykjavík- Breiðholt boðið á afmælishátíð skólans síðdegis þann dag.
Á hátíðinni gátu gestir m.a. litið á afrakstur nemenda, hátíðarræður voru fluttar og tónleikar voru haldnir þar á eftir. Ávörp fluttu Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir skólameistari, Eygló Harðardóttir, húsnæðis- og félagsmálaráðherra, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, Ásta Magnúsdóttir, ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari.
Gríðarlegt fjölmenni var í skólanum og var dagurinn stórskemmtilegur. Margir voru mættir aftur í skólann nokkrum árum eða áratugum eftir að þeir höfðu verið þar, þ.á.m. félagsmálaráðherrann Eygló Harðardóttir sem rifjaði upp góðan tíma í skólanum og að hafa alist upp í Breiðholtinu sem mótaði hana mikið.
Á afmælishátíðinni voru stofnuð hollvinasamtök skólans.
Nokkrir rótarýfélagar mættu á afmælishátíðina og færði forseti klúbbsins, Sigríður Kr. Ingvarsdóttir, skólanum veglegan blómvönd fyrir hönd klúbbsins og óskaði skólanum til hamingju með þennan merka áfanga og góðs gengis í framtíðinni. Magnús Ingvason, aðstoðarskólameistari tók á móti vendinum sem setti fallegan svip á anddyri skólans við hliðina á gestabókinni.
Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt hefur verið í góðu samstarfi við FB í gegnum tíðina og hefur í rúm 20 ár, bæði að hausti og vori, veitt einum nemenda við stúdentaútskrift viðurkenningu fyrir lofsverða ástundun og framfarir í námi auk virkni í félagslífi innan skólans. Verðlaunin eru veitt í minningu Jóns Stefáns Rafnssonar, tannlæknis, eins af stofnfélögum klúbbsins en Jón Stefán féll frá langt um aldur fram.