Ánægjuleg fróðleiksferð um Hvalfjörð og Borgarfjörð
Árleg haustlitaferð klúbbsins var farin laugardaginn 26. september og lá leiðin að þessu sinni um Hvalfjörð og Borgarfjörð. Þetta var einkar vel heppnuð fróðleiksferð með viðkomu á hernámssetrinu á Hlöðum í Hvalfirði, í Reykholti og á landbúnaðarsafninu á Hvanneyri.
Klúbbfélagar og makar voru mættir til brottfarar við Breiðholtskirkju skömmu fyrir kl. 10 að morgni. Þar beið rútubíll frá Guðmundi Jónassyni og var lagt af stað stundvíslega samkvæmt áætlun. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, form. ferðanefndarinnar bauð samferðafólkið velkomið og gerði grein fyrir ferðaáætlun. Spáð var miklu hvassviðri og rigningu þannig að útlit var fyrir að örðugt myndi að njóta haustlitanna úti við. Á Kjalarnesi voru miklir sviptivindar en aðstæður skánuðu í Hvalfirði og má segja að hópurinn hafi ekið í sólskini mestan hluta dagsins þó að óveðursský væru á næsta leiti.
Hópurinn naut ágætrar leiðsagnar klúbbfélaganna Ingvars Birgis Friðleifssonar og Sigurðar Bjarnasonar. Ingvar Birgir fór yfir jarðsögu svæðisins og Sigurður Bjarnason flutti almennan fróðleik um náttúrufar á leiðinni og tengdi leiðarlýsinguna frásögnum úr fornritunum. Valur Jónsson, bílstjóri, bætti um betur með upprifjun sinni á ýmsu sem á daga hans hefur drifið í rútubílaakstri á leiðinni, sem farin var.
Fyrsti viðkomustaður var hernámssetrið í félagsheimilinu á Hlöðum á Hvalfjarðarströnd, skammt frá Ferstiklu. Þar hefur Guðjón Sigmundsson, betur þekktur úr sjónvarpinu sem „Gaui litli“, komið upp mjög merkilegu safni ljósmynda og margvíslegra muna, sem tengjast þessu eftirminnilega ástandi í sögu Íslendinga á síðari tímum. Í Hvalfirði var sem kunnugt er þýðingarmikið skipalægi fyrir herskip bandamanna og flutningaskip á leið í skipalestum til Rússlands.
Ekið var um Dragháls yfir í Skorradal og sem leið liggur í Flókadal, þar sem áð var á leiðinni í Reykholt. Þegar þangað kom var gengið í kirkju þar sem séra Geir Waage tók á móti gestum. Séra Geir flutti yfirgripsmikið og afar fróðlegt erindi um sögu Reykholts og kristnihald á staðnum. Í lok heimsóknarinnar var gengið í fræðasetrið Snorrastofu, sem rekið er með stuðningi Norðmanna.
Á ferðinni um Borgarfjörð sagði Borgfirðingurinn Þuríður Einarsdóttir frá mannlífi í sveitinni á uppvaxtarárum sínum en hún og eiginmaður hennar Friðrik Alexandersson tóku síðan á móti hópnum í sumarbústað sínum skammt frá Munaðarnesi. Þar blöstu haustlitirnir við í allri sinni dýrð.
Í Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri hlýddi hópurinn á kynningu Bjarna Guðmundssonar og skoðaði síðan hina athyglisverðu sýningargripi, sem safnið hefur eignast. Gömul heyvinnslutæki endurvöktu gamlar minningar þeirra, sem verið höfðu í sveit, og dráttarvéladeildin með glæsilegum Fergusonum, Farmölum, og Deutz-dráttarvélum, gaf tilefni til mannjafnaðar um það hver hefði yngstur að árum keyrt traktor í heyskapnum í sveitinni.
Heimsókninni í Borgarfjörð lauk með kvöldverði í landnámssetrinu í Borgarnesi. Vilhjálmi og ferðanefndinni var þakkað framúrskarandi starf við undirbúning haustlitaferðarinnar sem lauk við Breiðholtskirkju um kl. 10 að kvöldi.