Fréttir

23.9.2015

Klúbburinn fagnar erlendum skiptinema

Rótarýklúbburinn Reykjavík Breiðholt tekur á móti erlendum skiptinema á þessu ári. Á fundi klúbbsins mánudaginn 21. september var neminn kynntur fyrir félögunum.

Skiptineminn heitir Enith Calderón og er 17 ára. Hún kemur frá Ekvador, býr þar í borg sem heitir Ibarra. Foreldrar hennar eru bæði tannlæknar. Hún kom hingað í lok ágúst og býr hjá fjölskyldu Sigurbjörns J. Gunnarssonar, félaga í Rkl. Breiðholts, til loka janúar en fer þá til annars klúbbfélaga,  Sigurlaugar H.Svavarsdóttur og fjölskyldu hennar og mun væntanlega búa hjá henni þar til hún fer heim í júní.

Nokkrum dögum eftir komuna til landsins byrjaði Enith í Versló og er þar í 4. bekk. Fjölskylda Sigurbjörns hefur farið með hana í ferðir um Suðurland og eins sýnt henni Reykjavík og nágrenni, farið á söfn o.fl. Einnig hefur hún hitt hina skiptinemana en Enith er ein fjögurra skiptinema sem dveljast nú hér á landi á vegum Rótarý. Hinir koma frá Brasilíu, Tævan og Bandaríkjunum. Skiptinemarnir munu mæta á umdæmisþingið í Borgarnesi og eins mun Enith koma með Breiðholtklúbbnum í haustlitaferðina 26. september.

Á myndinni: Sigurlaug H. Svavarsdóttir, Sigríður K. Ingvarsdóttir, forseti klúbbsins, Enith Calderón og Sigurbjörn J. Gunnarsson.