Fréttir

19.9.2015

Upplýsandi fundur með umdæmisstjóra

Magnús B. Jónsson, umdæmisstjóri,  og eiginkona hans Steinunn S. Ingólfsdóttir, heimsóttu klúbbinn á fundi mánudaginn 14. september. Áður en Sigríður K. Ingvarsdóttir, klúbbforseti, setti formlegan klúbbfund sat umdæmisstjóri á rökstólum með stjórn klúbbsins og ræddi  áætlanir hennar fyrir starfsárið og árherslur Rotary International og umdæmisins hér á landi.

Í heimsókn sinni rifjaði Magnús upp sögu Rótarýhreyfingarinnar, markmið hennar og grundvallarreglur. Hann lagði áherslu á að íslenskir rótarýfélagar hefðu jafnan í huga að þeir væru hluti af alþjóðlegri hreyfingu sem vinnur að mannúðarmálum víða um heim og er stjórnað í fjölmenningarlegu umhverfi. Vaxtarbroddurinn er nú í Asíulöndum, m.a. Kína. Þá benti Magnús á hið öfluga ungmennastarf Rótarý í Rotaract-kúbbum fyrir ungt fólk á þrítugsaldri og í Interact-klúbbum fyrir ungmenni á framhaldsskólastigi. Í Rotaractklúbbum eru 23.000 félagar víða um lönd. Þessir klúbbar unga fólksins hafa ekki náð að þróast hér á landi eins og erlendis.

K.R. „Ravi“ Ravindran, alþjóðaforseti Rótarý, hefur á stefnuskrá sinni að fjölga rótarýklúbbum og félögum í hreyfingunni. Er þeirri hvatningu beint til Vesturlanda sér í lagi, þar sem samdráttur hefur orðið á síðari árum. Þá hefur alþjóðaforsetinn beint því til klúbbanna að netvæðast í auknum mæli. Taka þyrfti tillit til nýrra, ungra félaga, sem lifa og hrærast  í öflugum samskiptum á Internetinu. Magnús umdæmisstjóri sagði það vera brýnt úrlausnarefni hjá Rótarý hér á landi að efla heimasíður umdæmisins og klúbbanna.

Góður rómur var gerður að ræðu umdæmisstjóra, sem í umfjöllun sinni rakti nokkur atriði sem betur mættu fara í starfi Rótarý hér á landi en enn fremur þann glæsilega árangur sem hefur víða náðst í starfi íslensku klúbbanna að einstökum verkefnum í nærsamfélaginu og framlögum til Rótarýsjóðsins, hins alþjóðlega samnefnarar hreyfingarinnar. Verður það ekki rakið nánar hér enda flytur Magnús boðskapinn beint í öllum íslensku klúbbunum þessar vikurnar.

Áður en Magnús vék úr ræðustólnum gafst tækifæri til að bera fram fyrirspurnir úr sal sem umdæmisstjóri svaraði. Að endingu minnti Magnús á umdæmisþingið í Borgarnesi 9. og 10. október næstkomandi. Hvatti hann rótarýfélaga til að fjölmenna á þingið sem haldið verður undir einkunnarorðunum: Menntun, saga, menning. Á fundinum var dreift glæsilegu kynningarriti, sem klúbburinn í Borgarnesi hefur gefið út í tilefni umdæmisþingsins.

Þá minnti Magnús á Rótarýdaginn sem haldinn verður 27. febrúar 2016. Hann sagði Rótarýdaginn 2015 hafa tekist með miklum ágætum og ástæða væri til þess enn á ný að kynna verkefni hreyfingarinnar fyrir almenningi á vettvangi klúbbanna í heimabyggðum þeirra.


Myndin að neðan: Umdæmisstjóri og eiginkona hans ásamt stjónarmönnum í Rkl. Breiðholts.Texti og myndir MÖA