Fréttir

1.7.2015

Fyrsta konan tekur við embætti forseta klúbbsins

Klúbburinn hélt starfsskilafund sinn í tilefni af lokum rótarýstarfsársins á Grand Hotel Reykjavík mánudaginn 29. Júní. Sigríður K. Ingvarsdóttir tók við embætti forseta klúbbsins og er hún fyrsta konan sem því gegnir. Klúbbfélagar og makar þeirra sátu fundinn, nutu góðs kvöldverðar og áttu ánægjulega kvöldstund saman.

Friðrik Alexandersson annaðist dagskrárstjórn. Áður en gengið var til fundarstarfa flutti Gissur Páll Gissurarson, ópersöngvari, ítölsk og íslensk sönglög við hinar bestu undirtektir. Undirleik á píanó og einnig á harmónikku annaðist Halldór Snorrason.

Áður en forsetaskipti fóru fram fluttu þau Elías Ólafsson, fráfarandi forseti og Sigríður K. Ingvarsdóttir ávörp.

„Forysta í ýmiss konar félögum er ekki alltaf eftirsóknarverð og það væri synd að segja að ég hafi sóst eftir þeirri vegtyllu að vera forseti Rótarýklúbbsins okkar þó mér líki stórvel við félagsskapinn og vilji honum allt hið besta,“ sagði Elías í ávarpi sínu. „Auðvitað er það hluti af því að vera þátttakandi í félögum að takast á hendur stjórnarstörf sem oft geta verið í senn skemmtileg og gefandi. Sagði ekki Jóhannes Kjarval einhvern tíma: “Það er heilmikið fyrirtæki að vera manneskja“?.

Elías leit yfir farinn veg og rifjaði upp nokkur eftirminnileg atriði í starfsemi klúbbsins, svo ferðalög klúbbfélaga og maka innanlands og til Færeyja, heimsóknir í fyrirtæki og stuðning við verkefni í nærsamfélaginu. Samfélagsverkefni klúbbsins síðastliðið starfsár voru einkum fólgin í styrkveitingu til kórs aldraðra í Gerðubergi, í  tvennum námsverðlaunum til nemenda í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og fimm námsverðlaunum til grunnskólanna í Breiðholti. Næsta starfsár verður erlendur skiptinemi hér við og mun dvöl hans verða í umsjón Rkl. Reykjavík Breiðholt. Dóttir eins klúbbfélaga heldur utan sem skiptinemi.

Elías lagði áherslu á gildi hinna reglubundnu, vikulega klúbbfunda:

„Þegar maður lítur yfir starf síðasta árs og spyr „hvað bar hæst?“ þá held ég að í heildina tekið beri hæst hinn almenni Rótarýfundur þegar við erum svo heppin að hlýða á góðan fyrirlestur og borða góðan mat saman í góðum félagsskap. Þeim fróðleik sem fram er borinn af gestafyrirlesurum okkar hefur stundum verið líkt við það sem gerist í opnum háskólum enda eru viðfangsefnin afar margvísleg svo ekki sé meira sagt. „Allar skoðanir skal endurmeta um leið og ný viðhorf myndast“ sagði Vigdís Finnbogadóttir einhverju sinni þegar hún var spurð hvort hún hefði skipt um skoðum í ákveðnu máli. Það held ég að geti átt vel við í kjölfar ýmissa erinda sem við höfum heyrt í vetur. Þá hafa klúbbfélagar lýst áhuga á að heyra oftar frá daglegum störfum og viðhorfum klúbbfélaga og hefur dagskrá fundanna einnig tekið mið af því. Við komum úr mismunandi geirum samfélagsins og þekkjum oft takmarkað starfssvið félaga okkar og því er full þörf á að kynna starfssviðin betur. Auk þess hafa félagar flutt 3 mínútna erindi reglulega og hefur það gefist vel. Með þessu móti teljum við líka að við fylgjum vel forskrift Rótarýhreyfingarinnar.“

Þessu næst fóru fram formleg forsetaskipti, þegar Elías afhenti Sigríði K. Ingvarsdóttur, forseta klúbbsins 2015-2016  forsetakeðjuna.

Að því loknu flutti Sigríður stutt ávarp og sagði m.a.:

„Ég vil byrja á að þakka ykkur fyrir það traust sem þið hafið sýnt mér að kjósa mig til að gegna því mikilvæga hlutverki sem forsetaembættið er, og sem fyrsta konan í þessum klúbbi til að gegna því hlutverki á þeim táknrænu tímamótum að í ár eru 100 ár liðin frá kostningarrétti kvenna. En við erum  9 konur í klúbbnum af 65 félögum.[…]Það verður hinsvegar ekkert sérstakt markmið mitt eða stjórnar að fjölga endilega bara öðru kyninu í klúbbnum heldur að hafa að leiðarljósi að fá inn góða og virka félaga af báðum kynjum. Hversu marga okkur tekst að fjölga um verður bara að koma í ljós en við höfum sett okkur það markmið að taka inn 2-3 félaga á þessu ári og hvet ég alla félaga að vera með augun opin fyrir nýjum og frambærilegum aðilum af báðum kynjum til að senda okkur í stjórninni upplýsingar um og bjóða með sér á fundi.“

Mitt hlutverk sem forseti verður að fylgja þeim markmiðum sem við í stjórninni höfum sett okkur fyrir næsta starfsár og verður dagskrá vetrarins og skrá um nefndarskipanir send til ykkar fljótlega. Með mér í liði verður öflugur hópur í stjórn sem ég er viss um að á eftir að vinna vel saman en þau eru; Eyrún Ingadóttir, sem mun gegna embætti ritara, Grímur Valdimarsson verður gjaldkeri, Magnús Hreggviðsson mun sjá um stallaraembættið og Ari Jónasson verður dagskrárstjóri. Og svo má ekki gleyma verðandi forseta Sigurlaugu Hrund Svavarsdóttur og fráfarandi forseta Elíasi Ólafssyni sem ég á örugglega eftir að leita mikið til og svo til ykkar allra hinna sem eruð mér reyndari hér í klúbbnum. Ég þigg allar góðar ábendingar frá ykkur og vona að þið takið viljann fyrir verkið að taka að mér svo veigamikið hlutverk sem forsetaembættið er  - En umfram allt: Góð áskorun fyrir mig í leiðinni sem ég hlakka til að takast á við.  Þakka ykkur fyrir!

                                                                                                                                                            Texti og myndir MÖA