Fréttir

26.6.2015

Gróðursetningarferð í Heiðmörk

Árleg heimsókn klúbbsins í gróðursetningarreit hans í Heiðmörk fór fram miðvikudaginn 24. júní. Klúbbfélagar ásamt mökum og niðjum komu saman í Elliðavatnsbænum en þaðan var haldið upp í Heiðmörkina að reit Rkl. Reykjavík Breiðholt.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fyrrv. forseti klúbbsins, rifjaði upp að klúbbfélaginn Sigurður E. Guðmundsson, sem var með í ferðinni, hefði sem forseti klúbbsins á sínum tíma haft frumkvæðið að því að Rkl. Reykjavík Breiðholt tók að sér landskika í friðlandinu og hóf gróðursetningu trjáplantna í honum.

Að þessu sinni voru settar niður nokkrar plöntur og hafði Þorsteinn Tómasson, plöntuerfðafræðingur og félagi í klúbbnum, valið þær. Þorsteinn flutti að vanda f róðlega og skemmtilega kynningu á viðfangsefninu. Tegundirnar sem um ræðir eru: Sýrena sem ætti að gera sig vel í lúpínubreiðunni. Koparreynir sem sömuleiðis ætti að plumma sig vel í næringunni sem lúpínan gefur af sér. Síðan var sett niður gott yrki af sólberjum sem heitir Melalathi sem einnig fær að njóta dugnaðar lúpínunnar auk þess sem hún fékk fylgd af nýrrri berjategund sem enn er ekki með nafni á íslensku en kalla mætti hind-hrútaber.

Í lokin voru gróðursettar tvær birkiplöntur, alsystkyn þar sem önnur skrýðist rauðu laufi en hin grænu. Þær fengu með sér ferðafélaga sem er niturbindandi belgjurt sem heitir maríuskór og mynda saman það sem kallað hefur verið landgræðslueining.

Í heimsókninni í ræktunarreitinn var einnig unnið að endurbótium á leiðinni inn á svæðið og viðarkurl lagt á göngustíginn.

Á leiðinni til baka að Elliðavatnsbænum var höfð viðdvöl við bautastein sem Skógræktarfélag Reykjavíkur, Skógræktarfélag Íslands, Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins stóðu að til minningar um Agner Fransisco Kofoed-Hansen fyrsta skógræktarstjóra landsins. Þar skoðuðu ferðafélagarnir fimm bjarkir, tvær af yrkinu Embla, tvær af yrkinu Kofoed og eina rauða björk sem kölluð hefur verið Roðinn úr austri þar sem hún á ættir að rekja til Finnlands.

Heiðmerkurferðinni lauk síðan í Elliðavatnsbænum, þar sem Elías Ólafsson, núverandi forseti klúbbsins, og Sigríður K. Ingvarsdóttir,verðandi forseti, tóku að sér hlutverk grillmeistaranna með góðum árangri.