Fréttir

31.5.2015

Vorferð til Færeyja

Dagana 11. - 14. maí sl. var hópur klúbbfélaga ásamt mökum á ferðalagi um Færeyjar. Farið var víða um norðureyjarnar og fundur sóttur í Rk Þórshafnar.  Annar rótarýklúbbur er starfandi í Klaksvík en báðir eru klúbbarnir í umdæmi 1440 Danmörk.

Forseti Rk Þórshafnar Rúni Abrahamsen bauð gestina velkomna til fundar á Hotel Hafnia og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrv. forseti Rk Breiðholts þakkaði móttökurnar. Skiptust þeir síðan á fánum klúbbanna. Á rótarýfundinum hlýddu félagar og gestir á athyglisverðan fyrirlestur um framtíðaráætlanir í orkumálum á eyjunum, sem Hákun Djurhuus, forstjóri orkufyrirtækisins Elfelagið SEV, flutti.

Ferðalangarnir heimsóttu einnig höfuðstöðvar fyrirtækisins PM, þar sem Poul Michelsen, fyrrum borgarstjóri Þórshafnar, sagði frá starfsemi þessa umfangsmikla innflutnings- og dreifingarfyrirtækis síns og dótturfyrirtækja. Poul er mikill Íslandsvinur og hefur um langt árabil átt margvísleg samskipti við Ísland á sviði verslunar, íþrótta og  stjórnmála.

Hópurinn naut ágætrar fararstjórnar leiðsögumannsins Per Hansen á ferðinni um eyjarnar. Var víða komið við í smærri og stærri byggðum, m.a. í Klaksvík, næststærsta bæ Færeyja. Þá var einnig viðdvöl höfð á hinum sögufræga stað Kirkjubæ og skoðaðar þar ýmsar fornar minjar. En sjón er sögu ríkari og birtist hér syrpa af myndum sem þeir klúbbfélagar í Rk Breiðholts Hinrik Bjarnason og Sigurður Bjarnason tóku í ferðinni. Smella hér.