Tengslin við Fjölbrautaskólann í Breiðholti efld
Það rifjaðist upp fyrir ýmsum félögum í Rkl. Breiðholts að fyrir rúmum 30 árum fóru undirbúningsfundir að stofnun klúbbsins fram á skrifstofu séra Guðmundar Sveinssonar, skólameistara, sem var félagi í Rk Reykjavík-Austurbæjar og einn helsti hvatamaður að stofnun Breiðholtsklúbbsins. Klúbburinn ákvað fljótlega á starfsferli sínum að veita einum nemenda við hverja stúdentaútskrift í FB viðurkenningu fyrir góðan námsárangur og öflugt starf í félagslífi nemenda.
Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameisari, tók á móti gestunum ásamt Magnúsi Ingvasyni, aðstoðarskólameistara, Stefáni J. Rafnar, fagstjóra húsasmíðabrautar, Sigrúnu Gísladóttur, fagstjóra sjúkraliðabrautar og Víði Stefánssyni, fagstjóra rafvirkjabrautar.
Elías Ólafsson, forseti Rkl. Breiðholts, setti rótarýfund í upphafi heimsóknarinnar og rakti í stuttu máli hvernig samskiptum klúbbsins og FB hefði verið háttað til þessa. Ennfremur benti hann á að innan FB starfi hópur sérfræðinga á ýmsum sviðum við kennslu og væri áhugavert að kanna möguleika á að þeir kæmu í heimsókn á fundi klúbbsins og ræddu um fagsvið sín.
„Við klúbbfélagar værum líka reiðbúnir til að koma hingað í heimsókn og taka þátt í starfsgreinakynningum fyrir nemendur skólans.“, sagði Elías. „Félagahópurinn endurspeglar fjöldann allan af starfsgreinum. Á einhverju stigi gæti það verið fengur að fá slíka aðila inn í skólann, hvort sem það væri í formlegum starfskynningum eða óformlegri heimsóknum, sem þó þyrfti að skipuleggja með fyrirvara.“ Málið hefur þegar verið rætt á stjórnendafundi í skólanum og hlotið góðar undirtektir.
Að loknum stuttum rótarýfundi var borinn fram glæsilegur kvöldverður. Því næst kynntu þau Guðrún Hrefna, skólameistari, og Magnús Ingvason, aðstoðarskólameistari, hina ýmsu þætti í starfsemi FB og sögu hans. Í upphafi máls síns færði Guðrún Hrefna klúbbnum sérstakar þakkir fyrir stuðninginn við skólann sem felst í hinum tveimur árlegu viðurkenningum, sem hann veitir við útskrift nýstúdenta frá skólanum.
„Það er mjög mikilvægt fyrir skóla að vera tengdir út á við,“ sagði Guðrún Hrefna. “ Skólafólk er upptekið af því merkilega starfi sem það er að sinna. En það er mikilvægt að við séum í stöðugu samtali við samfélagið. Einkanlega á þetta við um samfélag okkar hér í Breiðholti og þá velgjörðarmenn sem við eigum að.“
Hún benti á að skólinn væri fjölbreyttur og námsframboð mikið, sem þjónar mjög breiðum hópi, bæði þeim sem koma og njóta menntunar í FB og öðrum úti í þjóðfélaginu, sem síðan njóta afraksturs menntunar sem skólinn veitir. Ætti það ekki síst við um atvinnulífið vegna þess að Fjölbrautaskólinn í Breiðholti er mjög stór verknámsskóli. Um 60% af náminu, sem í boði er og kennt í áföngum, er bóknám. Um 40% er verknám eða listnám. Listnámið hefur hlotið mikla viðurkenningu og hefur fjöldi starfandi listamanna lært grunninn í sinni myndlist í FB. Starfsbraut fyrir fatlaða nemendur er einnig mikilvægur þáttur í starfsemi skólans.
Mikill fjöldi fullorðinna sækir námskeið í skólanum á kvöldin til að öðlast starfsréttindi. Um 300 manns eru skráðir í grunnnám til að verða sjúkraliðar, rafvirkjar eða trésmiðir. Tölvubraut var bætt við síðasta haust og hlaut afar jákvæðar viðtökur. Á næstunni verður stofnuð nýsköpunar- og frumkvöðlabraut þar sem boðið verður upp á samþættingu verkefna í tölvunámi, listnámi, rafvirkjun og húsasmíði.
Magnús Ingvason, aðstoðarskólastjóri, lýsti aðstæðum í Breiðholti og skólanum er hann hóf sjálfur nám sitt við FB árið 1976. Enn eru við skólann 13 kennarar, sem komnir voru til starfa á námsárum Magnúsar. Fyrsta árið voru nemendurnir 60 en 340 á því næsta. Magnús annaðist kennslu í fjölmiðlun í rúm 20 ár og hefur verið aðstoðarskólameistari í tvö ár.
Kvöldskóli og sumarskóli FB eru í umsjá Magnúsar. Nemendur hvaðanæva að fá tækifæri til að taka upp áfanga í sumarskólanum. Kennt er út júní og skólinn opinn frá 7, 30 að morgni og lokað kl. 23. Sagði Magnús að enginn skóli væri jafn vel nýttur of FB, í 10 mánuði á ári.
Að lokum svaraði Magnús fyrirspurnum og var síðan farið í skoðunarferð um skólann og höfð viðdvöl á rafvirkjabraut, sjúkraliðabraut og í smiðju húsasmíðabrautar. Áttu klúbbfélagar samtöl við nemendur og kennara, og fóru því margs vísari úr vel heppnaðri heimsókn í Fjölbrautaskólann í Breiðholti.