Fréttir

17.2.2015

Sjóvá heimsótt

Klúbburinn heimsótti höfuðstöðvar Sjóvár í Kringlunni 5 í Reykjavík á fundartíma mánudaginn 16. febrúar. Hermann Björnsson, forstjóri, Ómar Svavarsson, framkvæmdsstjóri sölu- og ráðgjafarsviðs og Pála Þórisdóttir, forstöðumaður fyrirtækjaþjónustu, tóku á móti gestum og kynntu þeim starfsemi þessa öfluga og gróna fyrirtækis á tryggingamarkaði.

 

Fyrirtækið Sjóvá var stofnað árið 1989 við samruna Sjóvátrygginafélags Íslands, stofnað 1918, og Almennra trygginga, stofnaðar 1943. Árið 1996 festi Sjóvá kaup á Húsatryggingum Reykjavíkur og tryggingafélaginu Ábyrgð. Lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar eignuðust meirihluta í félaginu 2011.

Sjóvá er annað stærsta tryggingafélag landsins og stærsta félagið á líftryggingamarkaði. Viðskiptavinagrunnur er vel dreifður og þjónustunet um allt land. Höfuðstöðvarnar eru í Reykjavík en auk þess eru 11 útibú og 23 umboðs- og þjónustuaðilar um landið allt. Meðalfjöldi starfsmanna var 189 árið 2013

Árið 1995 var STOFN kynntur til sögunnar en það er heildarlausn fyrir vátryggingar heimilisins, þjónustu við almenning. Félagið hefur árlega endurgreitt tjónlausum og skilvísum viðskipavinum í STOFNI auk þess sem þeir njóta fjölbreyttra tilboða og fríðinda.

Sjóvá hefur einnig sterka stöðu á fyrirtækjamarkaði. Um 140 af 300 stærstu fyrirtækjum landsins eru í viðskiptum við Sjóvá og er stefnt að því að auka við þann fjölda. Hjá Sjóvá sinna 16 starfsmenn fyrirtækjum eingöngu og er þjónusta veitt í aðalstöðvunum og útibúum um allt land.

Sjóvá leggur mikla áherslu á forvarnir. Reynslan sýnir að með markvissri forvarnavinnu er hægt að fækka og koma í veg fyrir tjón og slys, sem hafa áhrif á afkomu, skaða ímynd og geta haft áhrif á markaðshlutdeild, svo ekki sé minnst á beinar og óbeinar afleiðingar tjóna og slysa.

Félagar í Rkl. Reykjavík Breiðholt notuðu tækifærið og spurðu forstöðumenn Sjóvár fjölda spurninga um rekstur og markmið félagsins, og var þeim greiðlega svarað. Í lok heimsóknarinnar voru bornar fram veitingar.