Fréttir

28.1.2015

Tímahylki opnað á fundi

Fundur klúbbsins sl. mánudag var í umsjón ungmennaþjónustunefndar. Brugðið var á það ráð að „opna tímahylki“ eins og Hinrik Bjarnason, formaður nefndarinnar, orðaði það. Í tímahylkinu voru myndir og minningar frá árinu 1967 sem tengdust formanni nefndarinnar og núverandi forseta klúbbsins og reyndar fleiri félögum.

Á fundinum var brugðið upp sjónvarpsupptökum í svart/ hvítu með atriðum úr leikritinu Gilitrutt, sem voru meðal efnis í Stundinni okkar, barnatíma Sjónvarpsins, árið 1967. Hinrik stjórnaði Stundinni okkar á upphafsárum íslensks sjónvarps.

Þá var Hinrik Bjarnason einnig kennari og leiðbeinandi í leiklistarstarfi í Réttarholtsskóla en Elías Ólafsson, forseti klúbbins, einn af nemendun skólans og mikilvirkur í leikritauppfærslum í umsjá Hinriks.  Var Elías í hlutverki Norðangarðs, sambýlismanns Gilitruttar, í leikritnu.

Elías Ólafsson rifjaði upp hið merka starf Hinriks að leiklistarmálum í sínum gamla skóla og sagði að eftir því hefði verið tekið Í Reykjavík að á þessum árum skyldi vera hægt að setja upp heilu leikhúsverkin sem stóðu í tvo klukkutíma með þátttöku nemenda Réttarholtsskólans eins og t.d. Ímyndunarveikina eftir Molière.

„Hinrik var með ólíkindum kraftmikill og duglegur við að stjórna þessu,“ sagði Elías. Hann rakti síðan stuttlega starfsferil Hinriks í Sjóvarpinu en þar sem hann hafði umsjón með Stundinni okkar frá 1967 til 1975, var síðar dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar 1979 til 1985 og síðan forstöðumaður innkaupa- og markaðsdeildar Sjónvarpsins frá 1985-2000. Nýlega fagnaði Hinrik 80 ára afmæli sínu.

Í kynningarorðum sínum sagði Hinrik að þessi upptaka hefði verið send út í Stundinni okkar í janúar 1967. Hún er af tveim þáttum úr barnaleikritinu Gilitrutt eftir Ragnheiði Jónsdóttur.

„Börn og unglingar voru miklir frumherjar í leiklistarflutningi í íslensku sjónvarpi, þótt því sé aldrei haldið á lofti eins og vert væri,“ sagði Hinrik. Hann lýsi síðan hugleiðingum sínum um feril einstaklinganna í tímans rás og sagði:

„ Við skoðun á öllum tímahylkjum af þessu tagi upplýkst fyrir manni sú staðreynd að hver einstaklingur er tímahylki. Einkum þó hinir ungu. „Hvað skyldi nú verða úr honum eða henni?,“ hugsum við þegar við virðum fyrir okkur unga fólkið. Svarið er geymt í tímans rás. Við höfum haft áhuga á því að hafa framvirk áhrif á framvindu þeirra er berast um þá rás og reynum það með ýmsum hætti; uppeldi, námi, félagsstarfi, tilboðum um hvers kyns tómstundstarf og fleira og fleira. En þegar öllu er á botninn hvolft getur framtak okkar varla orðið miklu meira en að kynna vænlega valkosti og reyna að fylgja þeim eftir. Reyna að vekja áhuga, miðla upplýsingum. Vera heiðarlegt fordæmi.“