Fréttir

1.12.2014

Stjórnarkjör fyrir starfsárið 2015-2016

Fundur klúbbsins 24. nóvember var kjörfundur. Þá var kosið til stjórnar klúbbsins fyrir starfsárið 2015-2016. Áður höfðu klúbbfélagar tilnefnt frambjóðendur til stjórnarkjörsins.

Á fyrri fundi hafði verið leitað eftir tilnefningum í embætti verðandi forseta, dagskrárstjóra, ritara, gjaldkera og stallara. Forseti klúbbsins 2015-2016 var valinn fyrir ári og starfar í núverandi stjórn sem verðandi forseti. Það er Sigríður Kristín Ingvarsdóttir, sem verður fyrsta konan til að gegna starfi forseta í klúbbnum.

Töluverð kosningastemmning ríkti á fundinum. Kynntar voru tilnefningar sem áður höfðu farið fram. Þeir þrír sem flestar tilnefningar fengu til hvers embættis voru í kjöri og taldir upp í stafrófsröð á framlögðum lista. Ef tveir eða fleiri hlutu jafnmargar tilnefningar voru fleiri félagar en þrír í kjöri. Elías Ólafsson, forseti klúbbsins, óskaði eftir því að Sveinn H. Skúlason, fyrrv. umdæmisstjóri og  Sveinn Hannesson og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi forsetar klúbbsins, skipuðu kosningastjórn og tækju þátt í talningu atkvæða. Þeim til aðstoðar var Sigurbjörn J. Gunnarsson.

Atkvæðaseðlum var dreift og félagar rituðu nöfn frambjóðenda á seðilinn. Kosið var sérstaklega í hvert embætti. Síðan voru atkvæði talin og niðurstöður kynntar áður en kosning um næsta embætti var hafin. Talningin var hörkuspennandi  og fengu þær Jónína Bjartmarz og Sigurlaug H. Svavarsdóttir jafnmörg atkvæði þegar kosinn var verðandi forseti og réði þá hlutkesti, sem Sigurlaug vann. Ung kona úr hópi veitingafólksins á Grand Hotel var fengin til aðstoðar við hlutkestið.

Niðurstöður kosninganna urðu þær, að Sigurlaug H. Svavarsdóttir var kjörin verðandi forseti, Ari J. Jónasson, dagskrárstjóri, Eyrún Ingadóttir, ritari, Grímur Valdimarsson, gjaldkeri og Magnús Hreggviðsson stallari.

Stjórnarmenn 2015-2016, kjörnir á fundi klúbbsins 24. nóvember sl. Ari dagskrárstjóri, Grímur gjaldkeri, Sigurlaug verðandi forseti og Magnús stallari. Eyrún ritari þurfti að víkja af fundi áður en myndin var tekin.