Nýr félagi
Brynja Sigríður Blomsterberg, fjármálastjóri, var boðin velkomin sem nýr félagi í klúbbnum á fundi 24. nóvember sl.
Brynja S. Blomsterberg er fjármálastjóri Vöku ehf. Hún lauk námi sem cand. oecon. frá Háskóla Íslands 1993, útskrifuð af fjármálasviði. Brynja hefur ennfremur stundað tveggja ára meistaranám í viðskiptatengslastjórnun við Syddansk Universitet i Óðinsvéum. Er hún að ljúka við lokaritgerð, sem fjallar um nýtingu gagna innan fyrirtækja til að öðlast sterkari stöðu á markaði. Í náminu var áhersla lögð á ferli vöru, virði og flæði frá framleiðsluaðila til neytenda og einnig hvers kyns alþjóðleg tengsl, virðiskeðjur fyrirtækja og markaðssetningu, jafnt ”business to business” sem og ”business to consumer”.
Kynni Brynju af Rótarý hófust árið 2002 er hún var valin til að fara fyrir hönd Rótarý á Íslandi til Kaliforníu ásamt fleiri þátttakendum í GSE-starfshópaskiptum. Ferðin stóð í mánuð og mættu þátttakendur á Rótarýfundum þar ytra til að kynna Ísland auk þess að heimasækja hin ýmsu fyrirtæki.
Á klúbbfundinum bauð Elías Ólafsson, forseti klúbbsins, Brynju velkomna til starfa og sæmdi hana merki Rótarý.