Umdæmisstjóri í heimsókn
Guðbjörg Alfreðsdóttir, umdæmisstjóri, heimsótti klúbbinn og ávarpaði hann á fundi mánudaginn 17. nóvember sl. Fyrir klúbbfundinn hafði Guðbjörg setið á rökstólum með stjórn klúbbsins og fjallað um starfsemi hans og áætlanir.
Elías Ólafsson, forseti klúbbsins, bauð umdæmisstjórahjónin velkomin. Þetta var ein af hinum reglubundnu heimsóknum Guðbjargar og Ásmundar Karlssonar, eiginmanns hennar, í klúbbana 30 í landinu. Auk þeirra var Knútur Óskarsson, aðstoðarumdæmisstjóri, gestur á fundinum en Breiðholtsklúbburinn er einn af þeim klúbbum sem Knútur þjónar sem tengiliður við stjórn umdæmisins.
Guðbjörg gerði grein fyrir stöðu Rótarýhreyfingarinnar í heiminum um þessar mundir og fjallaði um þýðingarmestu verkefni hennar. Hún kynnti stefnumál núverandi alþjóðaforseta Gary C.K. Huang frá Taiwan. Hann leggur megináherslu á að mannúðarstarf Rótarý á heimsvísu og verkefni einstakra klúbba í heimabyggðum þeirra verði betur kynnt en verið hefur til þessa. Hann hefur því valið sér einkunnarorðin „Vörpum ljósi á Rótarý“.
Víða hefur félögum fækkað í rótarýklúbbum, t.d. í Vestur-Evrópu en fjölgað í Asíu. Við þessari þróun þurfa klúbbar á okkar heimssvæði að bregðast m.a. með breyttum fundartímum og dagskrárefni sem höfði betur til yngri félaga. Alþjóðaforsetinn núverandi hefur hvatt til þess að við þessu verði brugðist m.a. með því að makar og afkomendur rótarýfélaga gangi í rótarýklúbba.
Guðbjörg kynnti það sem eitt helsta stefnumál sitt að stofnsettir verði tveir nýir rótarýklúbbar hér á landi og er undirbúningur þess máls þegar hafinn. Hún minnti einnig á Rótarýdaginn sem haldinn verður 28. febrúar 2015 en þá er gert ráð fyrir að allir íslensku klúbbarnir efni til viðburða í nærumhverfi sínu til að kynna starfsemi sína og Rótarý í heild, eða standi að öðrum viðfangsefnum í þágu samfélagsins.
Guðbjörg vakti athygli á Rótarýsjóðnum sem er flaggskip alþjóðahreyfingarinnar. Framlög eru frjáls en stjórn Rotary International hefur hvatt rótarýfélaga um allan heim til að leggja í sjóðinn $100 árlega fyrir hvern félaga. Rótarýmenn á Íslandi hafa alls lagt fram um 1 milljón dollara í Rótarýsjóðinn. Framlag okkar skiptir því máli. Framlögum í Rótarýsjóðinn má ýmist veita í hinn svokallaða „árlega sjóð“, grunnsjóðinn, sjóð stærri framlaga til friðarseturs eða PolioPlus sjóðinn til útrýmingar lömunarveiki. Árlegi sjóðurinn gefur nýja möguleika á fjármögnun verkefna í heimabyggð. Umdæmi sækja um styrkveitingu úr honum á grundvelli framlaga sinna í sjóðinn þremur árum árlega. Með þessu skapast sömuleiðis nýir möguleikar á samstarfi um verkefni við klúbba í öðrum löndum.
Að ræðu Guðbjargar lokinni gafst nokkur tími til fyrirspurna til umdæmisstjóra og almennra umræðna, m.a. um starfsgreinaþróun innan klúbbanna, viðfangsefni þeirra og dagskrá funda, og framlög til Rótarýsjóðsins.