Klúbburinn heimsótti Olís
Heimsókn í aðalstöðvar Olís í Katrínartúni 2 í Reykjavík var á dagskrá klúbbsins hinn 10 október sl. Jón Ólafur Halldórsson, forstjóri, og Ragnheiður Björk Guðmundsdóttir, forstöðumaður starfsmannasviðs, tóku á móti klúbbfélögum.
Olís á sér langa sögu, sem rekja má allt aftur til ársins 1927 er Olíuverslun Íslands var stofnuð. Löngum gekk félagið líka undir nafninu BP vegna samninga sem gerðir voru á sínum tíma við British Petroleum.
Móttökurnar hjá Olís voru hinar veglegustu. Elías Ólafsson, forseti klúbbsins, setti fund og þegar gestirnir höfðu notið veitinga hlýddu þeir á mál Jóns Ólafs, forstjóra, sem rakti ýmsa þætti í starfsemi félagsins og gerði grein fyrir einkunnarorðunum, sem hann hefur valið sér: „Samvinna og sanngirni“.
Olís er elsta olíufélagið á Íslandi og í raun eitt elsta fyrirtæki landsins. Starfsemi þess fer fram á yfir 30 stöðum á landinu og heildarveltan árið 2013 nam 38 milljörðum. Í hverjum mánuði eru greidd laun til ríflega 500 starfsmanna.
Meginmarkmið Oís er að vera viðurkennt sem leiðandi fyrirtæki á Íslandi að því er varðar gæði vöru, þjónustu við viðskiptavini, arðsemi, góða ímynd, með sérstakri áherslu á stuðning við umhverfis- og mannúðarmál. Umhverfisstefna fyrirtækisins er mjög ítarleg.
Þjónustustöðvar Olís eru 40 um land allt. Þá rekur dótturfyrirtækið ÓB 34 stöðvar og auk þess eru 19 útibú. Olís á verslun Ellingsen í Reykjavík og á Akureyri og einnig Rekstrarlandsverslunina í Mörkinni 4 í Reykjavík. Þjónusta Olís er í öllum höfnum og á öllum flugvöllum á landinu.
Tengsl Olís við sjávarútveginn hafa ævinlega verið mjög mikil. Mörg stærstu fiskiskip landsins eru í viðskiptum við félagið. Olís tryggir sjávarútvegsfyrirtækjum mikila fjölbreytni í vöruvali og þjónustu, þ.á m. eldsneyti og smurolíur, rannsóknir á
Jón Ólafur, Ragnheiður Björk og Elías.
eldsneyti og smurolíum, keðjur, víra, net og toghlera, hreinlætis-og pappírsvörur, ýmsar rekstrarvörur og öryggis- og björgunarbúnað.
Þá rekur Olís heildsölu með víðtæku vöruúrvali og heildarlausnum varðandi þrif og rekstrarvörur, m.a. efnavörur og hreinsiefni, pappírsvörur, þakefni og viðgerðarefni fyrir byggingariðnað, fatnað, öryggisvörur og heilbrigðisvörur.
Olís hefur samfélagslega ábyrgð á stefnuskrá sinni og hefur á undanförnum áratugum veitt umtalsverðu fjármagni til umhverfismála, íþrótta, góðgerðarverkefna og menningar.
Jón Ólafur Halldórssonar gerði glögga grein fyrir ástandinu á olíumörkuðum heimsins um þessar mundir og áskoranir Olís þegar til framtíðar er lítið. Hann sagði að bensínmarkaður færi minnkandi en metangas og rafmagn væru í sókn sem orkugjafar fyrir bíla. Bílar eyða minna eldsneyti en áður, heimsóknum fækkar á þjónustustöðvar. Aukin hagkvæmni væri í sjávarútvegi, minni orkunotkun, aukin vinnsla í landi og fiskimjölsverksmiðjur nota rafmagn í stað svartolíu áður.
Olís opnaði nýlega metanafgreiðslu á Akureyri í samstarfi við Norðurorku. Áður hafði verið opnuð metanafgreiðsla á þjónustustöðvum Olís í Mjódd og Álfheimum í Reykjavík. Metanið er vistvænt íslenskt eldsneyti, unnið úr hauggasi frá lífrænum úrgangi. Ökumenn rafbíla geta nú hlaðið bílinn á átta hraðhleðslustöðvum sem Orka náttúrunnar (ON), dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hefur sett upp í samstarfi við Olís á Suður- og Vesturlandi.
Jón Ólafur benti á að þjónustustöðvar Olís um landið væru vel staðsettar. Þar væri aukið framboð af veitingum og þægindi í alfaraleið. Í boði væru þeir orkugjafar sem þörf er á og fjárfestingar í dreifikerfi til að að mæta nýjum kröfum. Aukinn fjöldi erlendra ferðamanna gæfi tilefni til bjartsýni á reksturinn í framtíðinni.
Að lokinni framsögu svaraði Jón Ólafur spurningum gesta um ýmis atriði í rekstri Olís og þá ekki síst bensínverð og starfsemi þjónustustöðva.