Fréttir

3.10.2014

Haustferð vestur á Mýrar

Haustlitaferð Rkl. Reykjavík-Breiðholt var farin laugardaginn 27. september. Ferðinni var heitið vestur á Mýrar með viðkomu á Kjalarnesi og við Langá.

Ferðahópurinn lagði af stað frá Breiðholtskirkju kl. 10:10. Þaðan var farið á Kjalarnes og Sigrún Einarsdóttir, glerlistakona heimsótt og listaverk hennar skoðuð.

Í framhaldi var ekið um Borgarnes að Langá þar sem klúbbfélaginn Viðar Ólafsson og kona hans Birna Björnsdóttir tóku höfðinglega á móti gestunum í nýja sumarbústaðnum sínum.

Á meðan við borðuðum brauð og kökur og drukkum úr glösum og bollum fræddi Viðar okkur heilmikið um landnám Mýranna og erjur og illindi, bæði höfðingja og bænda fyrri tíma.

Ekið var um Mýrar og áhugaverðir staðir skoðaðir undir fræðandi leiðsögn Viðars.  Hópurinn gerði stuttan stans við Álftaneskirkju og síðan var ekið í Straumfjörð þar sem minnismerki er um strand frönsku skútunnar „Pourquoi pas?“. Hér var slegið upp borði, etið og drukkið af nestinu og hlustað á fróðleik heimamanns sem við fundum á staðnum.

Síðan var haldið á Akranes þar sem byggðasafnið í Görðum var skoðað og kjötsúpa borðuð á veitingastaðnum Galito á Akranesi. Eftir það var ekið rakleiðis til Reykjavíkur, þar sem ferðinni lauk klukkan 21,20.


Frásögn Einar Haukur Benjamínsson. Myndir Þorvaldur Valsson.