Fréttir

12.8.2014

Þróun ferðamála rædd á fyrsta fundi starfsársins

Fyrsti fundur klúbbsins á nýbyrjuðu starfsári og að loknu sumarleyfi, fór fram á Grand Hótel Reykjavík mánudaginn 11. ágúst sl. Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, flutt yfirgripsmikið og mjög áhugavert erindi um núverandi stöðu ferðamála á Íslandi út frá ýmsum sjónarhornum.

Sigríður K. Ingvarsdóttir, verðandi forseti klúbbsins, setti fundinn og stjórnaði honum í fjarveru Elíasar Ólafssonar, klúbbforseta, sem staddur var á fjölskyldumóti erlendis.

Vel fór á því að í upphafi flutti einn af félögunum í klúbbnum, sr. Valgeir Ástráðsson, þriggja mínútna erindi um ferðalag á hestum um afréttarlönd Hrunamanna og Skeiðamanna og undur Laxárgljúfra, sem Stóra-Laxá fellur um, hin fegursta bergvatnsá landsins. Lýsti Valgeir hughrifum sem hann og samferðamenn hans urðu fyrir í þessari óspilltu náttúruperlu, sem liggur úr alfaraleið.

     Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri og Sigríður K. Ingvarsdóttir, verðandi forseti Rótarýklubbsins Reykjavík Breiðholt

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, lýsti í upphafi hlutverki Ferðamálastofu. Fer hún með framkvæmd ferðamála skv. lögum og stuðlar að þróun ferðamála sem atvinnugreinar. Ferðamálastofa vinnur og fylgir eftir stefnumörkun í málaflokknum og kemur með afgerandi hætti að framkvæmd ferðamálaáætlunar. Hún stuðlar að samstarfi og veitir þjónustu á sviði leyfisveitinga, þróunar, gæða- og skipulagsmála og markaðssetningar innanlands.

Ferðamálastofa rekur Vakann, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar sem er m.a. gæðastimplinn á þjónustu gististaða um landið. Hvatti Ólöf til þess að ferðafólk leitaði eftir merkjum VAKANS, þegar það veldi gististaði innanlands.

Fram kom í mál  Ólafar að árið 2013 voru gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar 223 milljarðar og var hún þá komin í efsta sæti. Næst komu sjávarafurðir með 201 milljarð og ál og álafurðir í þriðja sæti með 165 milljarða.

Kannanir frá 2011/12 sýndu að 75% ferðamanna sóttu sér upplýsingar um ferðalög til Íslands á Internetið, innan við 20% leituðu til flugfélaga eða ferðaskrifstofa. Minnisstæðast úr Íslandsferðinni var Blá lónið, íslensk náttúra var í öðru sæti, matur og veitingastaðir í því þriðja og fólkið og gestrisni í fjórða sæti.