Fréttir

1.7.2014

Fjölsóttur og skemmtilegur starfsskilafundur

Viðburðaríku afmælisstarfsári í sögu klúbbsins lauk á starfsskilafundi, sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík mánudaginn 30. júní. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson lét af starfi forseta og við embættinu tók Elías Ólafsson.

Félagar og makar mættu vel á þessum síðasta fundi starfsársins og var það mál manna að klúbbstarfið hefði verið einkar öflugt og fjölbreytilegt. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson setti fund og bauð félaga og gesti velkomna. Hann bað þá Aðalstein Ingólfsson og Jóhann Hjartarson að veita viðtöku viðurkenningu fyrir vel unnin störf sem nýir Paul Harris-félagar klúbbsins.
Síðan flutti Vilhjálmur skýrslu stjórnar um starfsemina á árinu. Rakti hann helstu viðburði ársins og bar þá hæst 30 ára afmælishátíð klúbbsins, sem haldin var 14. desember með fjölbreyttri dagskrá og sögulegri upprifjun sem gaf góða innsýn í starfsemi klúbbsins í þrjá áratugi. Þá fór fram útnefning fjögurra nýrra Paul Harris-félaga.
„Þetta var eftirminnileg afmælishátíð, sem gaf okkur byr undir báða vængi til að halda áfram með jákvæðum hætti, góðum félagsanda og vilja til að láta gott af okkur leiða,“ sagði Vilhjálmur. Þá rakti hann einnig hver verið hefðu helstu verkefni klúbbsins á liðnu ári. Nefndi hann sérstaklega klúbbþing, sem haldið var í september en það skilaði ýmsum tillögum og ábendingum m.a. um endurskoðun á lögum klúbbsins og hlutverk nefnda og samræmingu á störfum þeirra.
Tvö ný samfélagsverkefni bættust við á starfsárinu. Auk styrks til Gerðubergskórsins og nemendaverðlauna til tveggja nemenda í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, var ákveðið að veita nemendaviðurkenningu, veglega bókagjöf, til nemenda í grunnskólunum fimm í Breiðholti, einum nemanda í hverjum grunnskóla, fyrir góðan árangur í stærðfræði. Einnig var hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Breiðholti afhent gjafabréf að upphæð kr. 400 þús.kr. sem safnað var meðal klúbbfélaga, fyrirtækja í Breiðholti, fyrirtækja tengdum klúbbfélögum auk sérstaks framlags frá klúbbnum.
Samkvæmt tillögu stjórnar klúbbsins samþykkti umdæmisstjórn Rótarý að haldið yrði fyrsta skákmót Rótarý á Íslandi. Skáknefnd klúbbsins undir forystu Jóns L. Árnasonar annaðist skipulagningu og framkvæmd mótsins. Skákmótið fór fram á Grand Hótel mánudaginn 7.apríl. Rótarýskákmótð tókst mjög vel og verður árlegur viðburður. Sigurvegari mótsins var Jóhann Hjartarson, félagi í klúbbnum. Auk þess var Breiðholtsklúbburinn í fyrsta sæti í sveitakeppni.
Golfmót Rótarý fór fram fimmtudaginn 26.júní sl. á golfvelli GR í Grafarholti. Sjö félagar í klúbbnum tóku þátt í mótinu. Golfnefnd klúbbsins undir forystu Snæbjörns Kristjánssonar sá um skipulagningu og framkvæmd mótsins, sem tókst vel og var eitt fjölmennasta golfmót Rótarý á Íslandi, eða 55 þátttakendur. „Okkur tókst ekki að krækja í verðlaun að þessu sinni, en það kemur að því. Einnig ákveðin kurteisi að vinna ekki öll mót sem við höfum umsjón með,“ lét Vilhjálmur fylgja með í gamansömum tón.
Þá var farin haustlitaferð og einnig efnt til leikhúsferðar og vorferðar. Ekki má heldur gleyma Kínaferð 12 rótarýfélaga og maka. Ferðina skipulagði Jónína Bjartmarz, ritari. Ferðin var frábær og einstök upplifum að sögn ferðalanganna Velheppnuð haustlitaferð, sem ferðanefnd skipulagði undir forystu Arnar Gylfasonar, var farinn á Suðurland. Sigurður Bjarnason var aðalleiðsögumaður og Ingvar Pálsson skýrði frá jarðfræði og landslagi svæðisins. Í vorferðinni í Heiðmörk var stungið niður nokkrum trjáplöntum í skógræktarreit klúbbsins undir forystu Þorsteins Tómassonar, félaga í klúbbnum og vísindamanns í ræktunarmálum.
„Kæru félagar. Fráfarandi stjórn þakkar ykkur gott samstarf, góðan félagsanda og allan stuðning klúbbfélaga við þau verkefni sem klúbburinn hefur sýslað með á starfsárinu,“ sagði Vilhjálmur í lok ræðu sinnar. „Ég þakka einnig meðstjórnarfólki mínu gott samstarf og þeirra mikilvæga framlag til starfsemi klúbbsins.“
„Eins og ég sagði í upphafi hefur þetta starfsár verið bæði viðburðaríkt og um leið afar ánægjulegt í alla staði og samstarfið við undirbúning stærri viðfangsefna mjög gott. Ég þakka ykkur fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að gegna embætti forseta á starfsárinu. Ég hef gegnt fjölmörgum störfum á lífsleiðinni, þetta er og verður í hópi þeirra ánægjulegustu,“ sagði fráfarandi forseti að lokum um leið og hann óskaði nýrri stjórn velfarnaðar í störfum sínum.
Vilhjálmur bað síðan Elías Ólafsson að stíga fram og taka við forsetakeðjunni til marks um að stjórnarskipti hefðu farið fram í klúbbnum.
Í ávarpi sem Elías flutti rifjaði hann upp skemmtilega þætti af fyrri kynni sínum af ýmsum klúbbfélögum, áður en hann gekk sjálfur í klúbbinn fyrir tíu árum. Hann þakkaði Vilhjálmi fyrir mjög öfluga forystu í starfsemi klúbbsins; hann hefði verið vakinn og sofinn í því að sinna hlutverki forsetans vel „og á hann miklar þakkir skildar fyrir öll þau störf,“sagði Elías.
„Ég hef kunnað ágætlega við mig í klúbbnum og gegnt störfum gjaldkera og dagskrárstjóra fyrir klúbbinn auk þess sem ég hef starfað innan stjórnar síðasta ár sem viðtakandi forseti,“  
„Ég ætla ekki að lofa neinu sem nýr forseti, - ekki að lækka klúbbgjöld né bæta matinn, ekki lofa rauðvíni og hvítvíni með matnum og ekki lofa að fjölga konum um helming. Þessu lofa ég ekki né neinu öðru en því að ég mun leggja mig fram um að gera mitt besta eftir því sem tími minn dugar til. Þar á ég auðvitað allt undir ykkur ágætu klúbbfélagar og ekki síst á ég mikið undir meðstjórnendum mínum öllum,“ undirstrikaði Elías.
Sigurlaug H. Svavarsdóttir, veislustjóri kvöldsins, kynnti skemmtiatriðið sem beðið var eftir, sem var heimsókn Ragnars Bjarnasonar, hins ástsæla og landskunna dægurlagasöngvara er senn fagnar áttræðisafmæli sínu. Með honum var mættur Þorgeir Ástvaldsson, útvarpsmaður og samstarfsmaður Ragnars til margra ára, sem annaðist undirleik á píanó. Söng Ragnar mörg af kunnustu lögum sínum og sagði skemmtilegar sögur af ýmsu sem drifið hefur á hans daga á löngum söngferli. Ragnar stjórnaði fjöldasöng og söng tvísöng með Eyrúnu Ingadóttur, félaga í klúbbnum. Þá var myndaður karlakór, sem söng „Oh, Danny Boy“ með Ragnari og síðast en ekki síst tóku þeir lagið saman, félagarnir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Ragnar Bjarnason. Áður en þessari velheppnuðu samkomu klúbbsins lauk fluttu Hinrik Bjarnason og Guðmundur Guðbjarnason upprifjun og góðar óskir til nýrrar stjórnar auk sérstakra þakkarorða til Vilhjálms fyrir farsæla forystu á liðnu starfsári.

 Myndir og texti MÖA