Fréttir

3.6.2014

Fyrirtækjaheimsókn til Össurar hf.

Á reglulegum mánudagsfundi klúbbsins 2. júní sl. komu félagar saman í húsakynnum stoðtækjafyrirtækisins Össurar að Grjóthálsi 5 í Reykjavík. Þar var fundur settur og síðan hófst kynning á starfsemi þessa öfluga fyrirtækis, sem hefur haslað sér völl víða um heim.

Forseti  klúbbsins, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmssons,  setti fundinn og þakkaði Lárusi Gunnsteinssyni, vöruhönnuði hjá Össuri fyrir að hafa gefið klúbbfélögum í Rkl. Reykjavík- Breiðholt tækifæri til að heimsækja Össur hf., sem væri bæði framsækið og glæsilegt fyrirtæki og eins og allir vita eitt stærsta stoðtækjafyrirtæki í heiminum og í fremstu röð fyrirtækja á sínu sviði.

Því næst var gert stutt matarhlé, en Össur hf. bauð upp á veitingar.

Þá var komið að aðalefni fundarins, sem var kynning Lárusar. Hann fræddi kúbbfélaga um helstu viðfangsefni Össurar í dag. Fram kom hjá Lárusi að Össur á Íslandi byði alhliða stoðtækjaþjónustu, sölu á spelkum og stuðningshlífum auk sérsmiði á gervilimum og spelkum. Lárus skýrði frá því að Össur hf. væri að þróa mjaðmaspelku til að minnka verki og auka hreyfifærni einstaklinga með mjaðmaslitgigt. Hann sýndi klúbbfélögum fjölmörg sýnishorn af framleiðslu fyrirtækisins og lýsti starfsemi Össurar hf. á Íslandi.

Fram kom hjá Lárusi að starfsmenn Össurar hf. á Íslandi væru um 400, en samtals væru þeir um 2800 hér og í starfsstöðvunum erlendis. Hann bauð siðan klúbbfélögum í skoðunarferð um fyrirtækið í framhaldi af sinni kynningu , þar sem vinna við framleiðslu tækjabúnaðar var kynnt sérstaklega.

Áður en farið var í skoðunarferð um starfsstöðvar Össurar hf., þakkaði forseti klúbbsins Lárusi Gunnsteinssyni fyrir sérlega góða kynningu á starfsemi Össurar hf. og svörum við fjölmörgum fyrirspurnum . Klúbbfélagar tóku undir orð forseta með lófataki.