Fréttir

26.5.2014

Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ afhent gjafabréf

Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt hefur fært Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ í Suður-Mjódd í Breiðholti 400.000 krónur til kaupa á tækjum og búnaði í þágu heimilismanna og heimilisins.

Gjöfin var afhent við guðsþjónustu í Seljakirkju í Breiðholti hinn 25. maí er sr.Valgeir Ástráðsson, félagi í rótarýklúbbnum, lét af störfum og kvaddi söfnuð sinn. Hann var jafnframt prestur hjúkrunarheimilisins.Við athöfnina í kirkjunni flutti Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti rótarýklúbbsins, stutt ávarp og las upp svohljóðandi gjafabréf:

„Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt lýsir því hér með yfir, að klúbburinn muni í samráði við forstjóra hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar í Suður-Mjódd kaupa tæki og búnað í þágu heimilismanna og heimilisins fyrir kr. 400.000.-

Þessum fjármunum safnaði klúbburinn meðal klúbbfélaga og fyrirtækja og einstaklinga í Breiðholti. Gjöfin er tengd því að séra Valgeir Ástráðsson, sem verið hefur prestur í Seljakirkju frá stofnun 1980, lætur nú af störfum.

Séra Valgeir hefur verið prestur hjúkrunarheimilisins Skógarbæjar frá því heimilið tók til starfa.  Hann hefur verið félagi í Rkl. Reykjavík-Breiðholt frá 1985 og gegndi starfi forseta klúbbsins 2008-2009.

Það er ósk þeirra sem lögðu söfnuninni lið, að þessi stuðningur komi að góðum notum í því frábæra starfi sem unnið er á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ.“

Hrefna Sigurðardóttir, forstjóri Skógarbæjar veitti gjafabréfinu viðtöku.

Frá afhendingu gjafabréfsins. Elías Ólafsson, verðandi forseti rótarýklúbbsins, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, núverandi forseti, Hrefna Sigurðardóttir, forstjóri Skógarbæjar, sr. Valgeir Ástráðsson og eiginkona hans Emilía B. Möller.