Fréttir

12.5.2014

Vorferð til ræktunarstarfa í Heiðmörk

Klúbbfélagar, makar þeirra, börn og barnabörn, héldu í góða veðrinu sl. laugardag upp í Heiðmörk. Þar var stungið niður nokkrum trjáplöntum í skógræktarreit, sem klúbburinn hefur til umráða á þessu óviðjafnanlega útivistarsvæði.

Þátttakendur í vorferðinni hittust á Elliðavatni að morgni dags og óku síðan á eigin bílum alllangan spöl inn í Heiðmörkina, þar sem ræktunarland klúbbsins kallar á athygli félaganna. Þorsteinn Tómasson, klúbbfélagi og vísindamaður í ræktunarmálum, stjórnaði aðgerðum ásamt Gústafi Jarli Viðarssyni, skógfræðingi hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Félagið hefur sinnt Heiðmörkinni frá því að hún var friðuð sem skógræktar- og í útivistarsvæði árið 1950.
Þorsteinn flutti stuttar lýsingar á þeim tegundum trjáa, sem plantað var og rakti sögu þeirra hér á landi. Voru það prýðisgóðir fróðleiksmolar. Þeir Þorsteinn og Gústaf veittu síðan leiðbeiningar um verklag að hætti skógræktarfólks og aðstoðuðu börnin við að planta sínum trjáplöntum. Ungir sem aldnir höfðu hina bestu skemmtan af ræktunarstarfinu. Sól skein í heiði og varð vart á betra kosið veðurfarslega fyrir útivist af þessu tagi. Úr Heiðmörkinni var síðan haldið að Elliðavatnsbænum og slegið þar upp grillveislu í lok velheppnaðrar vorferðar klúbbsins.
Sjá myndband úr Heiðmerkurferðinni. Smellið hér.