Fréttir

29.4.2014

Heimsókn til HB Granda í Örfirisey

Klúbburinn heimsótti aðalstöðvar HB Granda á Norðurgarði í Örfirisey 28. apríl sl. Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri félagsins, tók á móti klúbbfélögum en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti klúbbsins setti rótarýfund eftir stutta skoðunarferð um húsakynni fyrirtækisins. Hann þakkaði nafna sínum fyrir þetta tækifæri til að kynnast starfsemi HB Granda hf. sem er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi og hefur skipað sér í fremstu röð fyrirtækja á sínu sviði.

Vilhjálmur Vilhjálmsson, forstjóri gerði síðan ítarlega grein fyrir hinum ýmsu rekstrarþáttum félagsins, afkomu þess á undanförnum árum og svaraði fyrirspurnum. Í fundarhléi var borin fram fiskisúpa og ýmis konar ljúfmeti úr fiski, sem matreitt var í mötuneyti fyrirtækisins. Sannkallaður herramannsmatur.
Tíu stærstu hluthafarnir í HB Granda eiga rúmlega 82% hlut en 562 aðrir hluthafar rúm 17%. Nýlega seldu stærstu hluthafar 27 % hlut í útboði. Hlutafjárútboðið leiddi í ljós að markaðsvirði félagsins er  um 50 milljarðar króna. Hagnaður ársins 2013 nam 35,4 milljónum evra. Veiðigjald nam 11,6 milljónum evra.
Reynsla og þekking í nýtingu auðlindarinnar og framleiðslu sjávarafurða endurspeglast í öllu starfi HB Granda. Lögð er rík áhersla á háþróaða tækni við veiðar og vinnslu og stöðuga þróun framleiðslunnar. Fyrirtækið framleiðir verðmæta gæðavöru úr fersku hráefni sem aflað er úr hafinu við Ísland. Lögð er áhersla á góða umgengni um auðlindina og ábyrgar fiskveiðar.
HB Grandi hlaut Íslensku útflutningsverðlaunin 2013 fyrir einstakt framlag félagsins til vinnslu og sölu íslenzkra sjávarafurða og forystu í nýsköpun á þessu sviði.
Afurðirnar eru seldar víða, en helstu markaðir eru Evrópa, Norður-Ameríka og Asía. Sex fisktegundir vega þyngst, þ.e. loðna 23%, karfi 19% og þorskur 15%. Sex viðskiptalönd standa að baki 60% af tekjum félagsins. Þýskaland og Noregur eru fremst í röðinni með 12% hvort, Rússland og Frakkland með 11% hvort land og Japan og Bretland með 7% hvort. Um 40% af heildarsölutekjum koma frá 32 öðrum viðskiptalöndum. Sala á vörum nam 195 milljónum evra á árinu 2013.
Hjá HB Granda vinna rúmlega 900 starfsmenn til sjós og lands. Starfsfólkið er af 17 þjóðernum. HB Grandi rekur fiskiðjuver í Reykjavík, Akranesi og á Vopnafirði. Lögð er mikil áhersla á framleiðslu lausfrystra flaka og flakastykkja úr karfa, þorski, ufsa og ýsu. Fiskiðjuverið á Norðurgarði í Reykjavík sérhæfir sig í vinnslu karfa og ufsa. Þar eru rúmlega 200 heilsársstörf. Fyrirtækið framleiðir fersk kæld flök sem send eru samdægurs með flugi á markaði í Evrópu. Vinnsluferlið gengur hratt og örugglega fyrir sig og kaupandinn getur treyst því að um er að ræða gæðavöru sem fengið hefur bestu fáanlegu meðferð á öllum stigum. Af annarri starfsemi hjá HB Granda ber að nefna hágæðavinnslu á mjöli og lýsi og móttöku á 6500 tonnum af fiskafurðum til þurrkunar og útflutnings til Nígeríu.
HB Grandi gerir út 7 togara, þ.e. 3 frystiskip og 4 ísfiskskip, og auk þeirra fjögur uppsjávarskip. Samningur hefur verið gerður við skipsmíðastöð í Tyrklandi um hönnun og smíði líkans af ísfisktogara til skoðunar í tanki. Hönnun líkans verður að fullu lokið í júní á þessu ári. Í framhaldi af því ræðst hvort samkomulag næst um smíði þriggja nýrra ísfisktogara HB Granda. Sá fyrsti yrði þá afhentur um mitt ár 2016. Tvö uppsjávarveiðiskipi eru í smíðum í Tyrklandi og verður fyrra skipið afhent í ársbyrjun 2015 en hið seinna um haustið. Endurnýjun flotans leiðir til hagræðingar og meiri afkastagetu.