Fréttir

7.4.2014

Nýr félagi kominn í klúbbinn

Á fundi hinn 7. apríl var Eyrún Ingadóttir formlega boðin velkomin sem félagi í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Breiðholt. Áhugi hennar á Rótarý vaknaði er hún tók þátt í starfshópaskiptum í Kaliforníu á vegum Rótarý árið 2002

                                   Eyrún Ingadóttir, sagnfræðingur, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti klúbbsins

Eyrún Ingadóttir er 46 ára, sagnfræðingur og rithöfundur ásamt því að vera í hlutastörfum hjá Lögmannafélagi Íslands og Lögfræðingafélagi Íslands sem framkvæmdastjóri.
Eyrún er fædd á Hvammstanga. Hún tók stúdentspróf frá náttúrufræðibraut Menntaskólans á Laugarvatni 1987. Síðan lagði hún stund á sagnfræðinám við Háskóla Íslands og lauk BA-prófi 1993. Lokaverkefni hennar var Saga Húsmæðraskóla Reykjavíkur í 50 ár, sem kom út árið 1992.
Auk starfa sinna í þágu Lögfræðingafélagsins og Lögmannafélagsins síðastliðinn áratug hefur Eyrún unnið við margvísleg ritstörf og blaðaútgáfu. Hún var framkvæmdastjóri Trausta, félags sendibifreiðastjóra og ritstýrði þá jafnframt Atvinnubílstjóranum, sem Samtök landflutningamanna gáfu út. Hún var blaðamaður hjá  Sunnlenska fréttablaðinu á Selfossi 1993-1996 og ritaði þá jafnframt sögu Húsmæðraskóla Suðurlands, Að Laugarvatni í ljúfum draumi, sem Samband sunnlenskra kvenna gaf út 1995. Þá vann Eyrún við útgáfu Árnesing III og Árnesings IV sem Sögufélag Árnesinga gefur út og ritaði ævisögu Eyjólfs R. Eyjólfssonar, Gengið á brattann, sem Skjaldborg gaf út árið 1998. Nýjasta ritverk hennar er Ljósmóðirin, söguleg skáldsaga sem kom út 2012 hjá Veröld.
Árið 2002 fór Eyrún til Kaliforníu á vegum Rótary í starfshópaskiptum Group Study Exchange, sem hún segir að hafi haft mikla þýðingu fyrir sig og starfsframa sinn. Síðan hefur hún fylgst með Rótary úr fjarska og hefur nú áhuga á að ganga til liðs við hreyfinguna.
Eyrún á tvö börn og þrjú stjúpbörn. Hún  er í sambúð með Árna Birni Valdimarssyni, húsasmíðameistara og annars eiganda fyrirtækisins Hábergs.