Fréttir

4.3.2014

Nýr félagi gengur í klúbbinn

Nýjum félaga í klúbbnum var fagnað á fundi mánudaginn 3. mars. sl. Sigurður Snævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri fasteigna SÁÁ, gerðist þá rótarýfélagi við hefðbundna athöfn, sem forseti klúbbsins Vilhjálmur Þ Vilhjálmsson stýrði.

Sigurður er Vestfirðingur í húð og hár og spanna ættir hans frá Dalasýslu vestur í Reykhólasveit, inn í Ísafjarðardjúp og til Bolungarvíkur. Hann er fæddur í Reykhólasveitinni en ólst upp í Reykjavík bæði í vestur og austurbænum. Eiginkona hans er Erla Pálmadóttir, forstöðumaður Fossvogskirkju. Þau eiga tvo syni.
Í ávarpi sínu á fundinum greindi Sigurður frá knattspyrnuiðkun sinni í Val en hann var annar gulldrengur Vals í knattspyrnuþrautum KSÍ. Síðan starfaði hann talsvert að félagsmálum hjá Val, m.a. í stjórnum og sem formaður handknattleiksdeildar félagsins. Einnig starfaði Sigurður í stjórnum og nefndum fyrir Handknattleiksráð Reykjavíkur og HSÍ, var m.a. formaður unglingalandsliðsnefndar þegar 19 ára landsliðið vann Norðurlandameistaratitilinn.
Sigurður og fjölskylda hans gerðist félagar í Golfklúbbi Reykjavíkur á áttunda áratugnum og hefur Sigurður gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í nefndum og aðalstjórn klúbbsins.
Sigurður hefur um langt árabil tekið þátt í störfum SÁÁ og setið í aðalstjórn, framkvæmdastjórn og bygginganefndum samtakanna. Hann hefur nú umsjón með fasteignum samtakanna. Sigurður rakti í stuttu máli framkvæmdasögu SÁÁ frá því að þau byggðu sinn eigin spítala á Vogi þar sem starfsemi hófst í árslok 1983. Enn í dag er byggt og Vogur stækkaður. Áformað er að viðbygging sem ætluð er fyrir veikasta fólkið verði opnuð um miðjan mai. Samtals eru eignir fasteignafélagsins tæpir 8000 fermetrar í Reykjavík, á Kjalarnesi og á Akureyri. Auk þess hefur SÁÁ afnot af Staðarfelli í Dölum, sem er í eigu ríkisins.

 Viljálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti klúbbsins, Sigurður S. Gunnarssson og Sveinn H. Skúlason, fyrrv.umdæmisstjóri, félagi í Rkl. Reykjavík-Breiðholt

“Ég hafði um nokkurt skeið verið að hugsa um að takast á við eitthvað nýtt í félagsmálum og hef skoðað ýmislegt sem tengist samfélagsvitund minni,“ sagði Sigurður í lok ávarpsins. "Eftir talsverðar bollaleggingar þá var valið auðvelt fyrir mig. Ég hafði samband við "gamla góða Villa" sem ég hef þekkt í rúma hálfa öld. Hér stend ég og þakka ykkur aftur.“

                                                                                                                                                                 möa