Kynning á nýsköpunarverkefnum Matís ohf.
Klúbburinn fór í fyrirtækjaheimsókn mánudaginn 10. febrúar til Matís ohf, sem hefur höfuðstöðvar við Vínlandsleið í Grafarholti. Þar tók Sveinn Margeirsson, forstjóri, á móti gestunum og kynnti þeim starfsemina.
Tilgangur Matís er að sinna rannsóknum og nýsköpun á sviði matvæla í þágu atvinnulífsins, lýðheilsu og matvælaöryggis, hafa á hendi fjármálalega umsýslu og reka aðra skylda starfsemi. Matís er heimilt samkvæmt lögum að stofna nýtt félag eða félög, sem verði í eigu þess til að annast ákveðna þætti starfseminnar. Þá er þvi einnig heimilt að standa að stofnun og gerast aðili að öðrum félögum og fyrirtækjum. Sarfsmenn Matís eru um 100 talsins.
Sveinn Margeirsson vakti m.a. athygli á sýningarskáp með ýmsum matvælategundum, sem Matís hefur átt þátt í að þróa í samvinnu við framleiðendur víða um landið. Einnig greindi hann frá fjölbreyttum verkefnum á sviði rannsókna og framleiðslu, þar sem ýmis innlend sprotafyrirtæki koma við sögu. Benti Sveinn m.a. á að í kjallara hússins væru gerðar tilraunir með framleiðslu á íslensku vískíi sem unnið hefur til verðlauna í nýskpunarkeppni. Samstarfsaðilar Matís eru fjölmargir á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu og í sumum tilvikum mjög öflug fyrirtæki á heimsvísu eins og Nestlé, Pepsico og Roquette. Ýmsar spurningar vöknuðu hjá fundarmönnum er þeir hlýddu á frásögn Sveins og svaraði hann þeim greiðlega.
Mörg verkefna Matís eru tengd fyrirtækjum í íslenskum sjávarútvegi. Þá hefur fyrirtækið samstarf við háskólastofnanir um menntun námsfólks, m.a. Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna. Tveir nemar hans, sem stunda hér nám um þessar mundir, ungar konur frá Mosambique og Nígeríu, voru einmitt að störfum hjá Matís þegar klubbfélaga bar að að garði og hittu þær þá vinkonu sína Sigríði K. Ingvarsdóttur, sem er skrifstofustjóri Sjávarútvegsskólans og ennfremur verðandi forseti rótarýklúbbsins.
Matís og Háskóli Íslands gegna forystuhlutverki í nýju umfangsmiklu fjölþjóðaverkefni sem 7. rannsóknaráætlun Evrópu hefur ákveðið að styrkja til fjögurra ára. Stuttheiti verkefnisins er MareFrame og ber enska titilinn: „Co-creating Ecosystem-based Fisheries Management Solutions“. Styrkurinn hljóðar upp á 6 milljónir evra, en heildarkostnaður við verkefnið er 7.8 milljónir evra. Hlutur Íslands í verkefninu nemur um 275 milljónum íslenskra króna sem skiptast á milli Matís, Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnunar. Í MareFrame verkefninu verður þróað fjölstofna fiskveiðistjórnunarkerfi og fundnar leiðir til að auðvelda innleiðingu þess í Evrópu. Styrkurinn er meðal stærstu verkefnastyrkja sem veittir eru í Evrópu á þessu sviði. Matís er verkefnastjóri MareFrame, en í því felst að Matís ber m.a. ábyrgð á að stjórna framgangi verkefnisins og samskiptum við fjármögnunaraðila. Með þessu festa íslenskir vísindamenn sig enn frekar í sessi í alþjóðlegu vísindasamstarfi.
Texti og myndir Markús Örn Antonsson