Fréttir

3.2.2014

Ógleymanleg ferð klúbbfélaga til Kína

Félagar úr Rótarýklúbbnum Reykjavík-Breiðholt ásamt mökum lögðu land undir fót í október og fóru í hálfsmánaðarferð um Kína. Var tækifærið m.a. notað til að sitja fund í hinum alþjóðlega rótarýklúbbi í Beijing.

Það voru rúmlega 20 manns sem tóku þátt í ferðinni.  Með í hópnum voru Gunnlaugur Jónsson félagi í Rótarýklúbbi Seltjarnarness og eiginkona hans. Leiðin lá til Beijing, Xian, Guilin og Sjanghæ og var ferðast á milli staða í flugvélum og járnbrautarlestum. Höfð var viðkoma í borginni Xiamen, þar sem einn af félögum klúbbsins Jónína Bjartmarz og eiginmaður hennar Pétur Þór Sigurðsson reka fyrirtæki og hafa búsetu hluta úr ári.
 Í höfuðborginni Beijing voru skoðaðir ýmsir þekktir, sögufrægir staðir eins og borgin forboðna, keisarahallir og torg hins himneska friðar. Einnig var að sjálfsögðu farið að Kínamúrnum og gengið á honum. Þá var sótt sýning hjá Pekingóperunni og farið á tónleika í Egginu, glæsilegri tónlistarhöll, sem tekin var í notkun 2007 með þremur hljómleikasölum sem taka 5 þúsund manns.  Þá var farið í listahverfi sem er gamalt iðnaðarhverfi þar sem listamenn hafa búið um sig og breytt í gallerí. Með slógust í lið þrjár ungar stúlkur frá Íslandi sem voru nýkomnar til Beijing með Síberíuhraðlestinni og ætluðu svo daginn eftir til Tokyo, en þær voru á ferðalagi um Asíu. Japanskur listamaður, sem var að opna sýningu á handverksmunum, þekkti til Íslands. Hann var gestakennari hjá Listaháskóla Íslands fyrir  nokkrum árum.
Hópurinn sótti fund hjá Rotary Club of Beijing.  Fundir eru haldnir á  Hotel Kempinski í Beijing  á þriðjudögum frá kl. 12:15-14:00.  Fundurin hófst með fordrykk meðan verið var að skrá sig inn á fundinn.  Boðið var upp á þriggja rétta máltíð með borðvíni.  Klúbburinn var stofnaður 1923. Starfsemin lagðist niður 1949 en reglulegir fundir hófust aftur 1996 og klúbburinn var svo formlega endurreistur 2006. Enginn Kínverji er í klúbbnum, en félagar eru frá rúmlega 20 löndum. Sumir starfa stutt í klúbbnum en aðrir dveljast lengur þ.á.m. Bandaríkjamaður sem rekur leikhús í Beijing og hefur verið klúbbfélagi frá 1996. Jónína Bjartmarz og Gunnlaugur Jónsson skiptust á klúbbfánum við forseta klúbbsins. Einnig bauð forsetinn Jónínu undir lok fundar að segja frá ferðinni um Kína og ennfremur sögðu bæði Jónína og Gunnlaugur frá starfsemi sinna klúbba á Íslandi. Stefán Skjaldarsson sendiherra sótti líka fundinn en starfsbróðir hans, sendiherra Spánar, var aðalræðumaður dagsins og fjallaði erindi hans um endurreisn Spánar eftir efnahagskreppuna 2007. 

Stefán sendiherra og eiginkona hans buðu ferðahópnum til kvöldverðar ásamt  starfsfólki sendiráðsins og nokkrir öðrum gestum.  Haldinn var bókaður rótarýfundur í sendiráðinu. Forseti setti fundinn og þakkaði sendiherra og eiginkonu hans höfðinglegt heimboð og frábærar veitingar. Hann fór nokkrum orðum um klúbbinn og gerði gestgjöfum og gestum grein fyrir ferðaáætlun og tilgangi fararinnar. Síðan færði hann sendiherrahjónunum gjafir, 4 keramik-egg eftir listakonuna Koggu, fána klúbbsins og tvær einkennishúfur klúbbsins í þessari för. Eins og myndir sýna vakti þessi gjörningur gleði og kátínu meðal samkvæmisgesta og sendiherrahjónin þökkuðu ljúflega fyrir.
Frá Beijing var haldið til Xian og skoðað safnið þar sem varðveittar eru 6000 leirstyttur af hermönnum, sem grafnar voru  úr jörðu á hinum síðari árum og vöktu heimsathygli. Það var síðan farið til borgarinnar Guilin og skoðuð stórfengleg  náttúrufyrirbæri og snilldarleg landslagshönnun en síðan haldið til Xiamen, þar sem hópurinn naut gestrisni  þeirra hjóna Jónínu Bjartmarz og Péturs Þórs.

Þar í borg eru verslunargötur með vel varðveittum glæsibyggingum frá þeim tímum er Bretar réðu lögum og lofum á þessum slóðum og stjórnuðu versluninni. Síðan lá leiðin upp til fjalla  og skoðaði hópurinn þorp Harka-fólks, eins konar varnarvirki sem byggð voru í hring með þykkum ytri múrum, gluggalausum hið neðra, til varnar umsátursmönnum og ræningjum. Hið innra er opið miðsvæði. Íbúðir eru timburbyggingar innan á hringmúr, þrjár til fimm hæðir.
Ferðinni lauk svo í Sjanghæ. Þar er heimsvæðingin á fullri ferð. Fjármagnið ræður för. Borgir taka algjörum stakkaskiptum. Hvert háhýsið rís á fætur öðru. Sjanghæ er framarlega meðal jafningja á heimsvísu. Þar blómstrar viðskiptalífið og þar rísa heimsins hæstu byggingar í fleirtölu. Hin lágreista byggð er á undanhaldi og Sjanghæ liðinnar aldar er óðum að hverfa, hvað þá svokallaður menningararfur fyrri tíma.                          Texti byggður á ferðasögu Gunnars S.Óskarssonar og Arnar Gylfasonar.   Ljósm. Gunnar S.Óskarsson og Jón Ásgeir Tryggvason.