Viðurkenning fyrir lofsverða ástundun í námi
Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt veitti viðurkenningu fyrir lofsverða ástundun og framfarir í námi við útskriftarathöfn Fjölbrautaskólans í Breiðholti sl. föstudag.
Þetta er í 44. sinn að nemandi sem lýkur stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti hlýtur námsverðlaun frá klúbbnum og viðurkenningarskjal. Námsstyrkurinn nemur 50 þúsund krónum. Til verðlaunanna var stofnað í minningu Jóns Stefáns Rafnssonar, tannlæknis, eins af stofnfélögum rótarýklúbbsins árið 1983 en Jón Stefán féll frá langt um aldur fram tveimur árum síðar.
Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameistari, kynnti val verðlaunaþegans og sagði:
„Það er ósk klúbbsins að verðlaunin verði veitt þeim nemanda sem skólinn telur hafa sýnt lofsverða ástundun og framfarir í námi, en auk þess verið mjög virkur í félagslífi innan skólans.
Ég flyt Rótarýklúbbnun þakkir skólans.
Ákveðið hefur verið að Berta Maria Hreinsdóttir hljóti verðlaunin að þessu sinni. Hún lýkur stúdentsprófi með fyrstu einkunn og hefur allan námstímann tekið virkan þátt í félagslífi skólans og sinnt nefndarstörfum.“
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti Rótarýklúbbsins Reykjavík-Breiðholt, var viðstaddur athöfnina í Háskólabíói og flutti Bertu Mariu hamingjuóskir frá klúbbnum. Ljósm. Jóhannes Long.