Góðir gestir frá Noregi
Á fundi klúbbsins 16.september bauð forseti sérstaklega velkomna 16 norska rótarýfélaga og maka, svo og Dag Wernö Holter, sendiherra Noregs á Íslandi, sem sérstaklega hafði verið boðið á fundinn til að halda erindi um samband Íslands og Noregs.
Að máltíð lokinni tók Gert Rietman, verðandi forseti rótarýklúbbsins í Örskog í Noregi til máls og fjallaði hann í stuttu máli um eigin klúbb, 33 ára gamlan, með aðeins 24 félaga enda telja íbúar sveitarfélagins Örskog aðeins um 2060. Fundarstaðurinn er í gamalli endurbyggðri og friðaðri byggingu frá 1896 sem áður hýsti banka. Hann sagði líka frá helstu þjónustuþáttum sveitarfélagins og frá næsta umhverfi þess m.a. Álasundi sem er aðeins í 30 km fjarlægð. Jafnframt sagði hann frá helstu viðkomustöðum hópsins í Íslandsferðinni , m.a. Hellisheiðarvirkjun, sauðaréttum sem hópurinn tók þátt í og heimsókn í Hörpu.
Að lokinni ræðu Norðmannsins flutti Þorsteinn Tómasson 3ja mín erindi og fjallaði um skógrækt og samstarf Íslands og Noregs á því málefnasviði.
Þá var komið að aðalfyrirlesara fundarins, Dag Wernö Holter, sendiherra, sem Jónína Bjartmarz kynnti. Hann fór víða í ræðu sinni, hóf hana við landnám, minnti á að Ísland hefði heyrt undir Noregskonung fyrr á öldum og sagði frá Gamla sáttmála m.m. Hann
færði sig síðan nær í sögu samskipta ríkjanna, kom inn á svipaða afstöðu þeirra til aðildar að Evrópusambandinu, fjallaði um hrunið á Íslandi og afleiðingar þess m.a. þær að um 1500-2000 Íslendingar hafa árlega frá hruni flutt búferlum til Noregs. Síðan fjallaði hann norðurslóðir og um samstarf ríkjanna um málefni tengd þeim, um norðurskautsráðið, brottför hersins og samstarf nokkurra Natóríkja um lofthelgisgæslu yfir Íslandi og hafsvæðinu í kringum það, - sem Noregur var fyrstur til að sinna.
Texti Jónína Bjartmarz/ Ljósm. Friðrik Alexandersson.