Félagar í Árbæjarklúbbnum í heimsókn
Félagar í Rótarýklúbbnum Reykjavík-Árbær heimsóttu klúbbinn á fundi 11. nóvember sl. Rótarýklúbburinn Reykjavík-Breiðholt var móðurklúbbur Árbæjarklúbbsins, þegar hann var stofnaður í mars 1990.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, forseti Breiðholtsklúbbsins, bauð félaga í Árbæjarklúbbnum velkomna og rifjaði upp tengsl klúbbanna á liðnum árum. Minnti hann m.a. á áform þeirra um að vinna að sameiginlegum verkefnum, sem kæmu íbúum á félagssvæðum þeirra að gagni.
Forsetar klúbbanna þeir Vilhjálmur og Reynir Ragnarsson settu fund hvor í sínum klúbbi en síðan var borinn fram málsverður og við tók dagskrá á vegum Breiðholtsklúbbsins. Kristján Búason, Rkl. Breiðholts, flutti hugvekju um nokkur undirstöðuatriði í starfi Rótarýhreyfingarinnar og mikilvægi þjónustuhugsjónar hennar. Aðalræðumaður fundarins var Sigurbjörn J. Gunnarsson, forstjóri Lyfju ehf. og félagi í Rkl. Breiðholts. Ræddi hann um breytingar á lyfsölu í landinu eftir að hún var gefin frjáls, og gerði grein fyrir uppbyggingu og rekstri fyrirtækisins. Lyfja hf var stofnuð 1995 og hóf rekstur lyfjabúðar að Lágmúla 5, árið 1996. Í dag rekur Lyfja hf 42 verslanir og afgreiðslustaði undir merkjum Lyfju, Apóteksins, Heilsuhússins og Lyfjalausna. Þá á Lyfja hf heildsölufyrirtækið Heilsu ehf. Hjá Lyfju hf starfa um 300 manns. Ræddi Sigurbjörn m.a. um verðlagningu á lyfjum hérlendis og reglur þar að lútandi. Að loknu erindi hans voru báru fundarmenn fram nokkrar fyrirspurnir, sem Sigurbjörn svaraði greiðlega. Var síðan komið að fundarlokum og fundi sagt slitið í báðum klúbbunum með formlegum hætti.
Ljósm. Kristján Pétur, Rkl. Árbæjar